þriðjudagur, 11. september 2007

Sporlaust

Hluti íslensku þjóðarinnar virðist vera horfinn sporlaust. Það gæti maður að minnsta kosti haldið eftir að hafa komið við í verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum undanfarna daga. Í þeim öllum (kannski með örfáum undantekningum) hafa galvaskir útlendingar tekið við og standa vaktina við búðarkassann daginn út og inn. Verslanir biðja viðskiptavini afsökunar á skertri þjónustu vegna manneklu. Kaffiterían í Aðalbyggingu HÍ hefur verið lokuð frá því að skólinn byrjaði í ágúst - enginn hefur fengist í starfið/störfin. Það þarf engan fréttatíma til að segja fólki hvernig staðan er því hún blasir við út um allt.

En hvað varð um allt fólkið sem sinnti störfunum? Hvar er konan sem vann í kaffiteríunni? Hvar eru unglingarnir sem afgreiddu á kassanum í matvörubúðinni? Fyrst urðu Íslendingar of fínir til að vinna í fiski, nú virðist vera komið að algengustu þjónustustörfunum.

Ég kom við í bakaríi í gær. Þar afgreiddu tveir útlendingar. Ég giska á að þeir hafi ekki verið á landinu lengi, en þeir töluðu þó hrafl í íslensku og skildu viðskiptavini að mestu leyti miðað við það sem ég sá. Kona sem var á undan mér í röðinni var verulega pirruð á að fólkið skildi ekki um leið hvað hún vildi af bakkelsi og gaf glögglega til kynna við þau að þetta líkaði henni ekki. - En var eitthvað við fólkið að sakast? Það var líklega að vinna vinnu sem enginn annar hefur fengist í. Ef ekki hefði verið fyrir þetta fólk væri bakaríið lokað. Vildi konan það frekar? Ef ekki, hvers vegna í ósköpunum þurfti hún þá að láta svona?

Hvaða störf skyldu Íslendingar flýja næst í stórum stíl? Skrifstofustörf? Fjölmiðlastörf? Framleiðslustörf? Kennarastörf? Get ég átt von á því að mæta einn morguninn í tíma í Háskólanum og þar er enginn Hannes Hólmsteinn að kenna, heldur Hugo Chavez?

"Góðan daginn... í dag ætla ég að fjalla um sósíalismann"