föstudagur, 28. september 2007

Búrma/Myanmar

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað mikið um vargöld í Búrma vegna herstjórnar sem stjórnar með harðri hendi þar, í Myanmar.

En þetta er einmitt sami staðurinn, Búrma og Myanmar. Sjálfsagt hefur það valdið ruglingi meðal almennings, sem hlýtur að spyrja sig hvort óánægja með herstjórn sé í Búrma eða Myanmar eða bæði á sama tíma, tveir fyrir einn. Það sem veldur enn meiri ruglingi er þegar fréttamenn virðast ekki einu sinni sammála um hvernig eigi að bera fram Myanmar, þannig bera sumir fram [míanmar], aðrir [mjanmar] og enn öðrum er þetta allt saman gjörsamlega ofviða og reyna þá að klastra þessu tvennu einhvern veginn saman, sem hljómar þá kannski [míamjanmar].

Skyldu ritstjórar fjölmiðla leggja starfsmönnum línurnar á innanhússfundum -> "Skýr ritstjórnarstefna okkar fjölmiðils er að tala um MJANMAR, en ekki eitthvað bölvað búrma eða míanmar. Misbrestur hefur orðið á þessu hjá vissum fréttamönnum, taki það til sín sem eiga."

Mér finnst Búrma flottasta heitið, sé það notað þarf enginn að velkjast í vafa um framburðinn nema einhver sérvitringurinn kjósi að túlka nefnið sem Brúmma.