miðvikudagur, 26. september 2007

Tvennt

  1. Fékk bréf frá lífeyrissjóði. Þar stóð að ég hefði unnið mér inn rúmar þúsund krónur á mánuði í ellilífeyri frá sjóðnum við 67 ára aldur. Hvað á ég að gera með þær upplýsingar? Hlakka til? Fara strax að bíða eftir krónunum þúsund fullur eftirvæntingar? Verður þessi lífeyrissjóður yfirhöfuð til þegar ég verð 67 ára? Alltaf eru þessi bréf frá lífeyrissjóðum eins, þau segja frá lágri mánaðarlegri upphæð sem maður fær eftir nokkra áratugi. Með fylgir svokallað fréttabréf sem sýnir nokkur súlurit og hvernig viðkomandi lífeyrissjóður hefur skilað bestu ávöxtun allra lífeyrissjóða síðustu 10 ár, og þetta virðist gilda um alla lífeyrissjóði. Allir hafa þeir skilað bestu ávöxtun undanfarin ár með einhverri reiknireglu sem þeir búa sjálfir til.
  2. Mæli með Borgarhjólum á Hverfisgötu. Fór með hjólið í viðgerð þangað eftir að hafa nánast lent í sjálfheldu á því um daginn þegar ég var á fullu spani niður brekku og skyndilega virkuðu bremsurnar mjög illa. En þeir löguðu bremsurnar sem virka núna frábærlega og töluvert betur en þær gerðu þegar hjólið var nýtt og settu bretti á það í leiðinni eins og ég óskaði eftir. Þetta kostaði fimm þúsund kall, sem er bara aðeins meira en að kostar að fylla bensíntank einu sinni. Svo verð ég ekki nema fimm mánuði að safna fyrir þessari viðgerð þegar ég verð 67 ára með peningunum frá lífeyrissjóðnum góða.