Mongolian Barbecue
Í nýafstaðinni Danmerkurferð borðuðum ég og Tómas á veitingahúsinu Mongolian Barbecue sem staðsett er í miðborg Kaupmannahafnar, n.t.t. á Stormgade 35, aftan við Tivoli. Matseðilinn er hlaðborð hússins og svo er hægt að velja um hina og þessa drykki. Starfsmenn veitingastaðarins eru að sjálfsögðu allir komnir í beinan karllegg af Genghis Khan, en Genghis var reyndar þekktur fyrir að stoppa á þessum stað til að nærast á ferðum sínum um Mongólska heimsveldið og sagði gjarnan við ferðafélagana "Djöfull væri maður til í einn föytan Mongolian Barbecue núna"Okkur var vísað til borðs og óðum síðan beint í hlaðborðið eins og úlfar í afmæli. Vissum ekki alveg hvað við áttum að halda með kjötið því það var allt saman hrátt. Fengum okkur þó skerf af því ásamt úrvali grænmetis á diskinn. Þegar Tómas hafði fyllt disk sinn tók einn starfsmaðurinn diskinn af honum við talsverða undrun hans. Í ljós kom að þetta var sósumeistarinn sjálfur. Nú var komið að því að velja sósur á réttinn sem sósumeistarinn hellti síðan á eftir kúnstarinnar reglum. Tómas valdi sér tvær sósur og ætlaði að láta gott heita en það fór alls ekki vel í sósumeistarann sem krafðist þess að hann veldi fleiri. Þá valdi hann eina til og sósumeistarinn gat sætt sig við það. Sósumeistarinn afhenti síðan grillmeistaranum vel sósaðan réttinn. Grillmeistarinn var reyndar ekki með grill heldur sérhannaða pönnu sem er 300°C og steikir því matinn á örskotsstundu. Grillmeistarinn var kampakátur allan tímann við pönnuna og brosti út að eyrum í hvert skipti sem hann afhenti okkur diskana eftir að hafa flamberað réttina í smástund.
Eftir að hafa séð sósumeistarann að störfum ákvað Tómas að biðja hann að mæla með sósum handa sér í næstu ferð að hlaðborðinu. Það fór fram nokkurn veginn svona:
T: "Hvad anbefaler du?"/"Með hverju mælir þú?"
S: "Hvidløg(?)..." / "Hvítlauk (?)..."
T (var ekki viss um að sósumeistari hefði skilið spurninguna): "Nej, hvad anbefaler du?"
S (hljómaði pirraður): "JAH, HVIDLØG!"
Síðan jós sósumeistari einum 5-6 sósum á diskinn hans í viðbót og afhenti grillmeistaranum.
Skemmst er frá því að segja að maturinn þarna var afbragðsgóður og seremónían í kringum hlaðborðið býsna hressandi. Lærdómur okkar eftir þetta var að það borgar sig ekki að styggja sósumeistarann og því er nýjum gestum staðarins bent á að kynna sér venjur hans áður en farið er þangað.
Einkunn: 9,0.
|