miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Brasilískt vax

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt með fyrirsögninni Karlmenn verða háðir brasilísku vaxi og þar stendur að það njóti sívaxandi vinsælda. Reyndar ber þessi frétt sterkan keim af auglýsingamennsku því einhver kona á nafngreindri snyrtistofu lýsir þessu yfir og haft er eftir henni í fréttinni ýmislegt um ágæti vaxins.

Að því gefnu að þetta sé rétt, eftirspurn hafi snaraukist, er þetta enn eitt dæmið um ruglið sem virðist fylgja velmeguninni. Kannski voru það mistök að fá sjálfstæði frá Dönum um árið. Kannski er bara best að búa við skort og einbeita sér að því að hafa til hnífs og skeiðar, í staðinn fyrir að vaða upp fyrir haus í ruglinu sem fylgir miklu magni peninga í umferð, reynandi að kaupa lífsfyllingu með ýmsum leiðum. Þá eru menn a.m.k. ekki hlaupandi í brasilískt vax á milli þess sem þeir tryllast yfir opnun stærstu leikfangaverslunar landsins og kaupa nýan sportbíl á nýu bílaláni. Í staðinn kroppa þeir maðkana úr mjölinu og naga hálfsársgamla skreiðina, klæddir mölétnum klæðunum í hnipri í dimmu skúmaskoti inni í torfbænum með smá ljóstýru frá lýsislampanum og láta hugann reika um brasilíkst vax og stórar leikfangaverslanir.