Öll dýrin í skóginum á fylleríi
Heimur versnandi fer. Það er alveg gefið. Það er mjög skemmtileg frétt í Fréttablaðinu í dag (16.jan). Hún fjallar um fugla í Svíþjóð sem hafa flogið á glugga háskólans í Karlstad undanfarna daga og drepist. Ástæðan fyrir þessari hegðun fuglanna var einföld: herfilegt fyllerí. Já, fuglar fara líka á fyllerí þótt ótrúlegt megi virðast. Það var þó ekki áfengi sem fuglarnir komust í heldur gerjuð ber (sem eru reyndar bullandi áfeng). Þetta hafa fuglarnir ákveðið í sameiningu. Já, nú skyldi sko sletta ærlega úr klaufunum og fara á ókeypis fyllerí (hljómar eins og íslenskt fólk). En það fór úr böndunum hjá þeim eins og gerist stundum og endaði illa. Hinir fuglarnir sem létu ekki plata sig í svona vitleysu nýta þetta í forvarnir handa ungunum sínum: "Þarna sjáiði hvernig fer þegar áfengi er haft um hönd, og það í óhófi". Svo eru örugglega nokkrir fuglar sem eru fúlir yfir því að hafa ekki komist í veigarnar. Mér þykir leitt að tilynna þeim fuglum að berin eru búin. Annars er eitt sem ég var að velta fyrir mér. Ef menn keyra fullir eru þeir sviptir ökuleyfi. Er ekki bara best að svifta sænska fuglafyllirafta flugleyfinu?
Svo var í nýliðnum desembermánuði annað vandamál með drukkin dýr.(Hvar endar þetta?). Það voru elgirnir í Noregi sem voru staðnir að verki við að gæða sér á gerjuðum eplum. Svo hlupu þeir blindfullir út á vegi og urðu í mörgum tilfellum fyrir bíl. Það verður að fara að opna sérdeild á Vogi fyrir áfengissjúk dýr. Það er deginum ljósara.
fimmtudagur, 16. janúar 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|