sunnudagur, 31. desember 2006

Áramótakveðja

Ég færi Dominos hjartanlegar og innilegar áramótakveðjur og þakka hlýjar kveðjur í smáskilaboði sem barst á aðfangadagskvöld í síma minn. Mér hlýnaði um hjartarætur og vöknaði um augu við lestur yndislegrar kveðjunnar.

Ég læt mér nægja að óska óbreyttum lesendum gleðilegs árs.

fimmtudagur, 21. desember 2006

Örkin hans Nóa

Vatnavextir um allt land. Menn og dýr í hættu. Hvar er Nói á Örkinni þegar á þarf að halda? Sé hann alveg fyrir mér siglandi upp Ölfusána, segja við hesta sem standa blautir og hraktir á einbreiðri brú sem stendur upp úr vatnselgnum: "Pollrólegir, Nói frændi kemur til bjargar".

þriðjudagur, 19. desember 2006

Ég boða yður mikinn fögnuð

Prófum er lokið.

mánudagur, 18. desember 2006

Framboð siðblindra?

Það er spurning hvort siðblindir ættu ekki að fara í sérframboð til Alþingiskosninga. Þá þyrfti ekki til nema smávegis klofning út úr nokkrum flokkum og þessi líka dýrindis listi væri sprottinn fram fullskapaður.

Það má jafnvel hugsa sér að slíkur listi næði mönnum á þing. Væri það ekki bara gott fyrir lýðræðið? Þurfa ekki siðblindir sína rödd á þingi eins og aðrir?

Enn betra: Flokkarnir gætu sett reglur um siðblindrakvóta á listum sínum. Siðblindir verða að hafa t.d. 1/5 sæta á listanum og ef þeir ná ekki settum árangri í prófkjörum skulu þeir færðir ofar.

föstudagur, 15. desember 2006

Allt í rugli

Rokkstöðvarnar spila oft lagið Skítapakk með Dr. Spock um þessar mundir. Fyrst þegar ég heyrði þetta lag þegar ég var úti að aka: "Þegar að ég kom heim í morgun þá var allt í rugli..." voru fyrstu viðbrögð að hugsa "Hvaða helvítis rugl er nú þetta?" og skipta um stöð. En smátt og smátt er ég farinn að kunna að meta þetta.

Áðan var ég t.d. að keyra og stillt var á Rás 2, einhver kona hringdi inn og sagði "Má ég biðja um óskalag, þarna Snjókorn falla með Ladda, það er svo skemmtilegt". Það er lag sem fer væntanlega á topp 10 yfir ofspiluðustu jólalögin, toppar að vísu ekki Jólahjól. En engu að síður hlýtur eitthvað að ganga að fólki sem hringir inn og biður um þetta lag. Það þarf engum blöðum um það að fletta að ég skipti strax um stöð og að sjálfsögðu var groddalagið í gangi, saltvitlaus maðurinn gargandi "Andskotans pakk! Skítapakk!" o.s.frv. Get ekki sagt annað en að það hafi átt sérdeilis vel við einmitt á þessari stundu. Ég var fullvissaður um það að vísað væri til fólks sem hringir inn í útvarpið og biður um útbrunnin jólalög í textanum.

þriðjudagur, 12. desember 2006

Forgangsröðun frétta

Fyrsta frétt aðalfréttatíma Sjónvarpsins í kvöld var að síðasti geirfuglinn væri stórskemmdur eftir vatnstjón á Náttúrugripastofnun. Það kalla ég aumkunarlega ómerkilega frétt miðað við næstsíðustu frétt fréttatímans - Haus frægustu kindar Íslandssögunnar fundinn -

Ég sé fyrir mér hraðspólaðar svarhvítar myndir af bandvitlausum gömlum sveitadurgum hlaupandi um suðurland, dettandi hver um annan þveran og skjótandi af byssum eitthvað út í loftið, blótandi rollunni. Stórkostlega íslenskt.

föstudagur, 8. desember 2006

Viðeigandi?

Þegar prófalestur stúdenta er í hámarki auglýsir Stúdentakjallarinn viðburði af áður óþekktum krafti. Sendir út tilkynningar á alla Háskólanema, "[blablabla og blablalba] spila í kvöld, hvernig væri nú að lyfta sér upp?" eða álíka.

Já, hvernig væri nú að stúdentar slægju þessu öllu upp í kærleysi? Fyllerí í Stúdentakjallaranum?

Sjálfur ætla ég að láta mér nægja að sitja heima og hlusta á Kim Larsen syngja "Jeg bor til leje på Haveje..." og fleiri ódauðlega texta á milli þess sem ég les um comparative approach og selection on the dependent variable eða slíkt - svo maður sletti nú (hohoho).