föstudagur, 15. desember 2006

Allt í rugli

Rokkstöðvarnar spila oft lagið Skítapakk með Dr. Spock um þessar mundir. Fyrst þegar ég heyrði þetta lag þegar ég var úti að aka: "Þegar að ég kom heim í morgun þá var allt í rugli..." voru fyrstu viðbrögð að hugsa "Hvaða helvítis rugl er nú þetta?" og skipta um stöð. En smátt og smátt er ég farinn að kunna að meta þetta.

Áðan var ég t.d. að keyra og stillt var á Rás 2, einhver kona hringdi inn og sagði "Má ég biðja um óskalag, þarna Snjókorn falla með Ladda, það er svo skemmtilegt". Það er lag sem fer væntanlega á topp 10 yfir ofspiluðustu jólalögin, toppar að vísu ekki Jólahjól. En engu að síður hlýtur eitthvað að ganga að fólki sem hringir inn og biður um þetta lag. Það þarf engum blöðum um það að fletta að ég skipti strax um stöð og að sjálfsögðu var groddalagið í gangi, saltvitlaus maðurinn gargandi "Andskotans pakk! Skítapakk!" o.s.frv. Get ekki sagt annað en að það hafi átt sérdeilis vel við einmitt á þessari stundu. Ég var fullvissaður um það að vísað væri til fólks sem hringir inn í útvarpið og biður um útbrunnin jólalög í textanum.