fimmtudagur, 17. janúar 2008

Framsóknarárin

Ég glaðvaknaði núna rétt fyrir fimm í morgun og líður eins og ég sé fáránlega vel útsofinn. Mjög einkennilegt, því síðustu tvo daga hef ég sofið yfir mig og misst af fyrstu tímum í tveimur áföngum í skólanum. Hef stillt mig inn á að vakna svona um ellefu í jólafríinu og það reynist nokkuð erfitt að laga svefntímann aftur að skólanum. Jólafríið hefur líka verið svo langt að maður er búin að festa svefnvenjurnar kirfilega inn í kerfið.

Er að lesa blöðin og ég tók eftir tilvitnun í heimasíðu Valgerðar Sverrisdóttur í 24 stundum:

Stöðugleiki framsóknaráranna er horfinn og af lygnum sjá hefur þjóðarskútan nú siglt inn í ólgusjó og veðurspáin er vond. Ólgan sem ríkir meðal landsmanna stafar fyrst og fremst af pólitískum stöðuveitingum sem fóru fram í desembermyrkrinu á meðan jólahlé alþingismanna stóð yfir og annir almennings vegna jólaundirbúnings voru miklar. Sjálfsagt hefur tíminn verið valinn með tilliti til þessa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft leikið þennan skollaleik með dómskerfið...


Mjög dramtísk lýsing - "stöðugleiki framsóknaráranna", "ólgusjó", "ólgan sem ríkir" "skollaleik". Mér finnst eins og hún sé að lýsa veruleika sem ég kannast ekki við, eins og hún sé í stjórnarandstöðu í Simbabve, ekki á íslandi. Þá gæti hún talað um stöðugleika framsóknaráranna, þarna þegar allt var æðislegt í Simbabve, áður en hin illa þokkaða stjórn Mugabe tók við völdum. Reyndar er stjórnarandstaða ekki leyfð í Simbabve og Framsóknarflokkurinn hefur aldrei haft völd þar, en að öðru leyti er þetta svipað.

Framsóknarflokkurinn datt út úr ríkisstjórn síðasta vor. Átakanlegar lýsingar margra flokksmanna á því hvernig nýrri stjórn hefur tekist að glutra flestu niður sem fyrri stjórn náði fram eru frekar fyndnar.