sunnudagur, 27. janúar 2008

Meint ósmekkleg Spaugstofa

Stundum sér maður skrif virkustu moggabloggara, enda er þeim er nánast troðið í andlitið á lesendum Mbl.is. í dálkinum heitar umræður og við hliðina á fréttum. Nú virðast ýmsir vera snarbrjálaðir yfir síðasta Spaugstofuþætti, ein kona kallar þátinn "Saurstofuna" o.s.frv. Ég horfði á þáttinn og það er ofar mínum skilningi að hægt sé að hneykslast svona mikið á honum. Meint siðleysið sá ég ekki, þvert á móti var þetta mjög eðlilegt grín að farsakenndu rugli í borgarstjórn Reykjavíkur, þótt litlu hafi verið við að bæta.

Þátturinn var talsvert yfir meðallagi, Spaugstofan er oft hundleiðinleg en hún var bara nokkuð fin í þetta skiptið. En margir virðast finna sig knúna til að setja upp vandlætingarsvip og kunna sennilega betur einhverskonar ofurkurteislegt (og leiðinlegt?) grín að þessu gegndarlausa kjaftæði í borgarmálum. Mótmæli í ráðhúsinu voru líka illa séð, sennilega hjá sama fólki. Jú, þetta eru forkastanleg vinnubrögð en það má ekki mótmæla, bara tauta yfir þessu heima í stofu og það má ekki gera grín nema mjög saklaust.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er búinn að sitja sem borgarstjóri og hann skeit upp á bak eins og flestir vita í kringum svokallað REI-mál. Hann sá ekki sóma sinn í að segja af sér þótt hann hefði verið meiri maður á eftir heldur ætlar hann að verða borgarstjóri aftur. Enginn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins virðist hafa andmælt nýjum meirihluta og sama fólk og reyndi að bola Vilhjálmi út vill nú leyfa honum að setjast í stólinn aftur til þess að fá annað tækifæri eða nánar tiltekið fá völdin aftur. Ólafur F. hefur margtönnlast á fylgistölum sínum og sagt að hann njóti stuðnings 10% Reykvíkinga og komi nú flestum sínum málum í gegn. Er eðlilegt að hann komi flestum málum sínum í gegn með slíkar fylgistölur? Er eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk flest atkvæði í borgarstjórnarkosningum lúffi með sín mál fyrir manninum sem fékk 10%, bara fyrir völd?

Nei, þetta er allt saman fullkomlega óeðlilegt og Spaugstofuþátturinn á laugardaginn var eins og blásaklaust lítið barn við hliðina á skrípaleiknum í borgarstjórn Reykjavíkur.