fimmtudagur, 26. júní 2008

Jafnréttisverðlaunin

Ég varði því miður ekki titilinn í jafréttisverðlaunum trausti.blogspot.com. Hún vann.

Þetta þýðir ekkert annað en að ég þarf að girða mig í brók. Hún hún hún hún hún hún, þetta ætti að hækka stuðulinn fram að næstu verðlaunum. Óíþróttamannsleg framkoma, en nú verður að beita öllum meðulum til þess að endurheimta titilinn að ári. Vona að ég verði ekki dæmdur úr keppni fyrir þetta.

Fótbolti

Ágætt að sjá að einhver Englendingur er með fullu viti þegar kemur að umfjöllun um enska landsliðið og gæði þess. Hér er pistill ensks blaðamanns um málið í ísl. þýðingu.

Annars voru Tyrkir ekki langt frá því að fara í úrslit EM. Tippaði á þá fyrir 200 kr. en fékk ekki sexföldunina sem ég vonaðist eftir. Pabbi sagðist ætla að leggja mikið undir á Þjóðverja, taldi að þeir ynnu örugglega. Þeir unnu, en ekki beinlínis örugglega. Spánverjar/Rússar vinna þá í úrslitum, vonandi Spánverjar, því þá verður spá mín fyrir mót um meistara rétt. Rússar eru hins vegar nautsterkir og Spánverjar munu ekki vanmeta þá þótt þeir hafi malað þá í riðlinum.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Um EM og umfjöllun RÚV

Jæja, enn einn rosalegur leikur að baki á EM í fótbolta. Sennilega er þetta besta keppni sem ég hef séð. Fyrsta umferðin var ekkert spes á heildina, fyrir utan stórsigur Hollendinga á Ítölum. Það er aldrei leiðinlegt að sjá Ítali jarðaða á velli, að ekki sé talað um þegar það er gert með slíkum töktum.

RÚV hefur haldið ágætlega utan um keppnina en þó eru vissir menn að lýsa leikjum sem ættu bara að vera heima. Hlutdrægnin er á köflum gjörsamlega óþolandi. Lýsarnir í kvöld voru of hliðhollir Þjóðverjum og það var dómarinn líka. Sambærileg brot liðanna fengu ólíka meðferð, Þjóðverjar komust upp með meira. Það versta var hins vegar þegar Ballack kom Þjóðverjum í 3-1 með kolólöglegu marki, þar sem hann hrinti Ferreira mjög greinilega svo hinn síðarnefndi missti jafnvægið. Gummi Torfa (sem er einn sem ætti að vera heima en ekki að lýsa) talaði um að hann hefði "stuggað aðeins við honum", enda á bandi Þjóðverja. Portúgalir urðu ráðvilltir í kjölfarið og fóru að skjóta á markið allt of snemma í stað þess að spila sig í gegnum vörn Þjóðverja eins og þeir voru búnir að gera nokkrum sinnum í leiknum.

Versta dæmið um hlutdrægni lýsenda er samt ekki þessi leikur, þegar Adolf Ingi og Willum lýstu leik Ítala og Rúmena lýstu þeir eingöngu út frá sjónarhorni Ítala, sögðu hvað Ítalirnir þyrftu að gera, ættu að gera, og veltu síðan framhaldinu fyrir sér hjá þeim. Rúmenar virtust ekki vera til í orðabók þeirra félaga. Adolf hrópaði líka "VÍTI!" eða VÍTASPYRNA!" þrisvar að mig minnir undir lok leiksins þegar Ítalir köstuðu sér niður til að fiska. Ekki sérstaklega fagmannlegt. Nokkuð er um að menn ákveði fyrir fram hverjir séu bestir, Ítalir eru "frábærir" af því að þeir eiga stærri sögu á stórmótum en Rúmenar, það sama má segja um Frakka, sem í raun voru sendir heim með skottið á milli lappanna í þessarri keppni. Þó vinna lið ekki leiki á fornri frægð og forn frægð er ekki ávísun á góðan bolta. Svo virðist líka oft gilda lögmálið fleiri þekktir leikmenn í liði = betra liðið. Þetta sást t.d. í upphitunarþætti Þorsteins J. kvöldið fyrir keppni, þegar talað var um Englendinga stóran hluta af þættinum þrátt fyrir að þeir séu ekki einu sinni með.

Ég hef horft á tvo leiki á BBC, í stað þess að hlusta á Snorra eða Adolf lýsa. Þar má yfirleitt treysta á fagmannlega umfjöllun, kempur að lýsa og slíkt og hlutleysi í hávegum haft með sárafáum undantekningum.

Einn maður hefur borið af í lýsingum á RÚV, hann heitir Valtýr Björn. Sérstaklega fannst mér hann fara á kostum í besta leik keppninnar hingað til, Holland - Frakkland. En umfram allt, frábær keppni og ég vona að Spánverjar jarði Ítali á sunnudagskvöld, því fyrr sem þeir fara heim, því betra. Held mig við spána um sigur Spánverja í keppninni. Annars græt ég ekki ef Hollendingar hampa titlinum, sérstaklega ef þeir halda áfram að sína sömu meistaratakta og hingað til. Svo hef ég reyndar oftast haldið með þeim á stórmótum.

þriðjudagur, 17. júní 2008

Bjarndýr

Aðalfrétt flestra íslenskra fjölmiðla snýst um annan ísbjörninn sem villst hefur til Íslands á skömmum tíma. Ísbjörninn sem kom um daginn var plaffaður niður stuttu eftir að hans varð vart. Margir urðu hryggir, reiðir, sárir og mig minnir að ég hafi heyrt fleiri lýsingarorð um aðferðina. Talsmaður Greenpeace lýsti strax undrun og fordæmingu á þessari einföldu leið til að koma í veg fyrir áframhaldandi hættu af birninum. Nokkrir fjölmiðlar utan lands fjölluðu víst einnig um málið og lýstu á neikvæðan hátt. Ísbirnir væru friðaðir og algjörlega ólýðandi að skjóta þá.

Mér fannst og finnst þessar fordæmingar frekar fáránlegar. Það má vel vera að ísbirnir séu friðaðir en flestir geta þó viðurkennt að þeir séu hættuleg rándýr. Það hefði verið dýrt spaug og mun tímafrekara að freista þess að deyfa björninn og veiða í búr. Neikvæða umfjöllunin hafði hins vegar þau áhrif að ákveðið var nú í kjölfar komu annars bjarnarins að hafa samband við NATO - bandamenn okkar, Dani, en sérfræðingar þaðan ætla að koma og góma bjarndýrið lifandi og flytja aftur til heimkynna þess. Fréttir af málinu hafa borið léttan keim af æsifréttamennsku, fjölmiðlar gera sér aldeilis mat úr því þegar eitthvað gerist nú í árlegri gúrkutíð sumars. Kannski er þessir fyrstu tveir ísbirnir bara forsmekkurinn af því sem koma skal, kannski verður það ísbjarnaher næst, þá verður eins gott að bandamenn Íslands verði til taks.

Seinni ísbjörninn virðist vita vel að hann er stjarnan og sýnir af sér frekar handahófskennda hegðun. Hann fær sér að éta úr einu hreiðri og leggur sig síðan í smástund með ístruna út í loftið. Eftir smá blund gæðir hann sér á innihaldi næsta hreiðurs og leggur sig aftur og svo koll af kolli. Ef marka má fréttir Ríkisútvarpsins í morgun er vindátt mjög hagstæð að því leyti að björninn finnur ekki mannaþef í lofti. Á meðan svo er heldur hann örugglega bara áfram að fara milli hreiðra og leggja sig.

Jarðskjálftinn um daginn

Jarðskjálftann á suðurlandi um daginn skítnýttu margir fjölmiðlar til umfjöllunar, það hefði varla verið hægt að fjalla meira um hann. Aukafréttatími var hjá Sjónvarpinu, Bogi Ágústsson mætti í myndver og fjallaði um skjálftann og talaði við nokkra valinkunna viðmælendur, sem reyndar sögðu allir nokkurn veginn það sama, "Talsvert eignatjón en ekkert tjón á fólki", svo var fimm sekúndna myndskeið (eða fyrstu myndir) af skjálftanum spilað aftur og aftur og aftur, örugglega minnst 20 sinnum. Ég hafði á tilfinningunni að Bogi nennti alls ekki að vera þarna, enda leit hann mikið í kringum sig og það virtist vera fararsnið á honum, sem er ekki skrýtið því þarna sat hann og þurfti að þylja upp það sama aftur og aftur og heyra í viðmælendum sem sögðu ekkert nýtt. Svo sást að hann var að slá eitthvað inn í tölvu inn á milli, flestir hafa eflaust haldið að hann væri að skoða eitthvað tengt skjálftanum en ég gæti alveg eins trúað að hann hafi bara verið í Minesweeper eða að leggja kapal, lái honum hver sem vill. Þetta er sennilega það sem fólk vill, þegar suðurlandsskjálftinn reið yfir á þjóðhátíðardaginn fyrir nokkrum árum voru margir mjög æstir og stór orð látin falla um að Sjónvarpið hefði "brugðist almannavarnahlutverki sínu" með því að rjúfa ekki beina útsendingu frá íþróttaleik um leið og fyrstu fréttir komu af skjálftanum. Þó gat væntanlega allt þetta fólk kveikt á útvarpi til þess að fá upplýsingar um skjálftann eða kíkt á netið, þótt netið sé orðið útbreiddara nú en það var þá.

Nú hins vegar brást Sjónvarpið þessu sama fólki ekki, aukafréttatíminn var á sínum stað í tæka tíð. Fólk fær sennilega öryggistilfinningu af því að sjá Boga í myndveri fjalla um jarðskjálfta, sem er þannig að vönduðustu dömubindi blikna í samanburði.

Gleðilega þjóðhátíð.

sunnudagur, 8. júní 2008

Silvester time

Ég hef sagt nokkrum lesendum frá einum samstarfsmanni mínum í álverinu síðasta sumar. Hann var pólskur og talaði ensku við okkur með áberandi hreim. Hann hafði búið á Íslandi í fáeina mánuði ef ég man rétt. Sennilega er leitun að öðrum eins meistara.

Hann ávarpaði mig oftast "Hey, Gúmmí", en nöfn starfsmanna eru alltaf framan á hjálmunum og á fötunum. Eitt af því fyrsta sem hann tilkynnti mér var: "Hey Gúmmí, Friday...I get the money" (sagt í hálfgerðum mafíósatón). Ég áttaði mig ekki strax á hvað hann ætti við og spurði "Ok...what money?" og þá svaraði hann "paycheck", sem var rétt - útborgunardagur í álverinu var næsti föstudagur.

Skömmu eftir útborgunardaginn mikla kom hann frekar vonsvikinn og sagði okkur að hann hefði bara fengið í kringum 150.000 kr. útborgaðar, sem hljómaði óeðlilega lítið sem mánaðarlaun, enda höfðum við hinir fengið mun hærra. Svo talaði hann við fólk á skrifstofunni til þess að fá skýringar og þá kom í ljós að hann hafði ekki skilað inn skattkorti, sem var kannski ekkert skrýtið, því enginn hafði sagt honum neitt um það. Eftir það kom hann til mín og sagði: "Hey Gúmmí, they tell me I have to get this skatkort...this is true?!" og ég gat staðfest að það væri rétt.

Einn daginn sagði annar samstarfsmaður honum frá áramótunum á Íslandi, að þau væru mögnuð og lýsti flugeldasprengingum og partýhaldi með miklum tilþrifum fyrir honum. Eftir smáskammt af fjálglegum lýsingunum greip sá pólski inn í og sagði "aaa, you mean silvester time?" og hinn samstarfsmaðurinn hló bara og sagði "silvester time, what the fuck is that?". Þá reyndi sá pólski að útskýra það fyrir honum að hann ætti við áramótafögnuð eða áramót og hinn skildi um leið. Síðan skrapp hinn samstarfsmaðurinn frá. Sá pólski virtist ekki viss um að það hefði alveg komist til skila hvað "silvester time" væri og tók upp krítina sína og skrifaði á gráa steynsteypuna inni í kerskála "2006 -> 2007", benti á það og sagði við mig "you know Gúmmí, when there is maybe 2006, an then there comes 2007...that is silvester time".

Þetta er það helsta sem ég man eftir en það var fleira gull sem kom frá þessum ágæta manni.

Er Sylvester Stallone forsenda góðra áramóta í Póllandi?

laugardagur, 7. júní 2008

Tónleikar Super Mama Djombo á Nasa

Hljómsveitin Super Mama Djombo hélt tónleika á Nasa síðasta laugardagskvöld. Fyrir tónleikana vissi ég lítið um hljómsveitina, annað en að hún kæmi frá Gíneu-Bissá. Hljómsveitin spilar Afríkutónlist "með kúbönsku ívafi" stóð einhversstaðar.

Þetta voru frekar góðir tónleikar, hressandi taktur, spilamennska og söngur. Sviðsframkoman var líka fín. Þegar seig á sinni hluta tónleikanna var eldri söngkona sveitarinnar í aðalhlutverki, hún virðist vera leynivopnið sem er geymt þar til í seinni hlutanum. Svaðaleg rödd þar á bæ. Reyndar gæti ég trúað að hún héti Super Mama og að allir hinir meðlimir sveitarinnar væru afkomendur hennar, með ættarnafnið Djombo. En það eru nú bara getgátur.

Eitt var hins vegar til að spilla stemmingunni, það var þegar Egill Ólafsson Stuðmaður birtist á sviðinu eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Egill virðist líta frekar stórt á sig og virtist telja sjálfan sig aðalnúmerið þegar hann var á sviðinu. Blaður hans á milli laga var misheppnað. Ég leit yfir salinn þegar Egill birtist og sá grettur á nokkrum andlitum. En svo sá ég líka einhverja sem virtust kunna að meta þennan aukamann. Hann söng á íslensku og passaði alls ekki þarna inn í. En sem betur fer var hann ekki með í nema þremur lögum eða svo.

En á heildina voru þetta sem sagt góðir tónleikar og ég mun fjárfesta í plötu með Super Mama Djombo til þess að fá Gíneu-Bissá beint í æð heima í stofu.

Einkunn (ef Egill er undanskilinn): 8,5.
Einkunn (að Agli meðtöldum): 8,0.

föstudagur, 6. júní 2008

EM í fótbolta - spá

EM hefst á morgun með tveimur leikjum. Eftirfarandi er spá mín um framgang mótsins og úrslit.

Riðlakeppni (lið sem fara áfram í 8-liða úrslit feitletruð):
A-riðill
Sviss
Tékkland
Portúgal
Tyrkland

B-riðill
Austurríki
Króatía
Þýskaland
Pólland

C-riðill
Holland
Ítalía
Rúmenía
Frakkland

D-riðill
Grikkland
Svíþjóð
Spánn
Rússland

Meistarar:
Spánverjar.
Markakóngur:
Ruud van Nistelrooy.

"Spánverjum gengur alltaf illa á stórmótum" er tugga sem hefur margoft heyrst. Þeir hafa samt orðið Evrópumeistarar, það er bara mjög langt síðan. Það sem ég held að sé Spánverjum til tekna nú, frekar en áður er að talsvert fleiri leikmenn spila utan Spánar en á undanförnum stórmótum.

Ég ætla að halda með Spánverjum í þetta skiptið, kannski aðallega vegna þess að Liverpool á flesta fulltrúa þar. Spáin er því blönduð óskhyggju, eins og oft gildir um slíkar spár.