laugardagur, 7. júní 2008

Tónleikar Super Mama Djombo á Nasa

Hljómsveitin Super Mama Djombo hélt tónleika á Nasa síðasta laugardagskvöld. Fyrir tónleikana vissi ég lítið um hljómsveitina, annað en að hún kæmi frá Gíneu-Bissá. Hljómsveitin spilar Afríkutónlist "með kúbönsku ívafi" stóð einhversstaðar.

Þetta voru frekar góðir tónleikar, hressandi taktur, spilamennska og söngur. Sviðsframkoman var líka fín. Þegar seig á sinni hluta tónleikanna var eldri söngkona sveitarinnar í aðalhlutverki, hún virðist vera leynivopnið sem er geymt þar til í seinni hlutanum. Svaðaleg rödd þar á bæ. Reyndar gæti ég trúað að hún héti Super Mama og að allir hinir meðlimir sveitarinnar væru afkomendur hennar, með ættarnafnið Djombo. En það eru nú bara getgátur.

Eitt var hins vegar til að spilla stemmingunni, það var þegar Egill Ólafsson Stuðmaður birtist á sviðinu eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Egill virðist líta frekar stórt á sig og virtist telja sjálfan sig aðalnúmerið þegar hann var á sviðinu. Blaður hans á milli laga var misheppnað. Ég leit yfir salinn þegar Egill birtist og sá grettur á nokkrum andlitum. En svo sá ég líka einhverja sem virtust kunna að meta þennan aukamann. Hann söng á íslensku og passaði alls ekki þarna inn í. En sem betur fer var hann ekki með í nema þremur lögum eða svo.

En á heildina voru þetta sem sagt góðir tónleikar og ég mun fjárfesta í plötu með Super Mama Djombo til þess að fá Gíneu-Bissá beint í æð heima í stofu.

Einkunn (ef Egill er undanskilinn): 8,5.
Einkunn (að Agli meðtöldum): 8,0.