Bjarndýr
Aðalfrétt flestra íslenskra fjölmiðla snýst um annan ísbjörninn sem villst hefur til Íslands á skömmum tíma. Ísbjörninn sem kom um daginn var plaffaður niður stuttu eftir að hans varð vart. Margir urðu hryggir, reiðir, sárir og mig minnir að ég hafi heyrt fleiri lýsingarorð um aðferðina. Talsmaður Greenpeace lýsti strax undrun og fordæmingu á þessari einföldu leið til að koma í veg fyrir áframhaldandi hættu af birninum. Nokkrir fjölmiðlar utan lands fjölluðu víst einnig um málið og lýstu á neikvæðan hátt. Ísbirnir væru friðaðir og algjörlega ólýðandi að skjóta þá.
Mér fannst og finnst þessar fordæmingar frekar fáránlegar. Það má vel vera að ísbirnir séu friðaðir en flestir geta þó viðurkennt að þeir séu hættuleg rándýr. Það hefði verið dýrt spaug og mun tímafrekara að freista þess að deyfa björninn og veiða í búr. Neikvæða umfjöllunin hafði hins vegar þau áhrif að ákveðið var nú í kjölfar komu annars bjarnarins að hafa samband við NATO - bandamenn okkar, Dani, en sérfræðingar þaðan ætla að koma og góma bjarndýrið lifandi og flytja aftur til heimkynna þess. Fréttir af málinu hafa borið léttan keim af æsifréttamennsku, fjölmiðlar gera sér aldeilis mat úr því þegar eitthvað gerist nú í árlegri gúrkutíð sumars. Kannski er þessir fyrstu tveir ísbirnir bara forsmekkurinn af því sem koma skal, kannski verður það ísbjarnaher næst, þá verður eins gott að bandamenn Íslands verði til taks.
Seinni ísbjörninn virðist vita vel að hann er stjarnan og sýnir af sér frekar handahófskennda hegðun. Hann fær sér að éta úr einu hreiðri og leggur sig síðan í smástund með ístruna út í loftið. Eftir smá blund gæðir hann sér á innihaldi næsta hreiðurs og leggur sig aftur og svo koll af kolli. Ef marka má fréttir Ríkisútvarpsins í morgun er vindátt mjög hagstæð að því leyti að björninn finnur ekki mannaþef í lofti. Á meðan svo er heldur hann örugglega bara áfram að fara milli hreiðra og leggja sig.
Jarðskjálftinn um daginn
Jarðskjálftann á suðurlandi um daginn skítnýttu margir fjölmiðlar til umfjöllunar, það hefði varla verið hægt að fjalla meira um hann. Aukafréttatími var hjá Sjónvarpinu, Bogi Ágústsson mætti í myndver og fjallaði um skjálftann og talaði við nokkra valinkunna viðmælendur, sem reyndar sögðu allir nokkurn veginn það sama, "Talsvert eignatjón en ekkert tjón á fólki", svo var fimm sekúndna myndskeið (eða fyrstu myndir) af skjálftanum spilað aftur og aftur og aftur, örugglega minnst 20 sinnum. Ég hafði á tilfinningunni að Bogi nennti alls ekki að vera þarna, enda leit hann mikið í kringum sig og það virtist vera fararsnið á honum, sem er ekki skrýtið því þarna sat hann og þurfti að þylja upp það sama aftur og aftur og heyra í viðmælendum sem sögðu ekkert nýtt. Svo sást að hann var að slá eitthvað inn í tölvu inn á milli, flestir hafa eflaust haldið að hann væri að skoða eitthvað tengt skjálftanum en ég gæti alveg eins trúað að hann hafi bara verið í Minesweeper eða að leggja kapal, lái honum hver sem vill. Þetta er sennilega það sem fólk vill, þegar suðurlandsskjálftinn reið yfir á þjóðhátíðardaginn fyrir nokkrum árum voru margir mjög æstir og stór orð látin falla um að Sjónvarpið hefði "brugðist almannavarnahlutverki sínu" með því að rjúfa ekki beina útsendingu frá íþróttaleik um leið og fyrstu fréttir komu af skjálftanum. Þó gat væntanlega allt þetta fólk kveikt á útvarpi til þess að fá upplýsingar um skjálftann eða kíkt á netið, þótt netið sé orðið útbreiddara nú en það var þá.Nú hins vegar brást Sjónvarpið þessu sama fólki ekki, aukafréttatíminn var á sínum stað í tæka tíð. Fólk fær sennilega öryggistilfinningu af því að sjá Boga í myndveri fjalla um jarðskjálfta, sem er þannig að vönduðustu dömubindi blikna í samanburði.
Gleðilega þjóðhátíð.
|