sunnudagur, 8. júní 2008

Silvester time

Ég hef sagt nokkrum lesendum frá einum samstarfsmanni mínum í álverinu síðasta sumar. Hann var pólskur og talaði ensku við okkur með áberandi hreim. Hann hafði búið á Íslandi í fáeina mánuði ef ég man rétt. Sennilega er leitun að öðrum eins meistara.

Hann ávarpaði mig oftast "Hey, Gúmmí", en nöfn starfsmanna eru alltaf framan á hjálmunum og á fötunum. Eitt af því fyrsta sem hann tilkynnti mér var: "Hey Gúmmí, Friday...I get the money" (sagt í hálfgerðum mafíósatón). Ég áttaði mig ekki strax á hvað hann ætti við og spurði "Ok...what money?" og þá svaraði hann "paycheck", sem var rétt - útborgunardagur í álverinu var næsti föstudagur.

Skömmu eftir útborgunardaginn mikla kom hann frekar vonsvikinn og sagði okkur að hann hefði bara fengið í kringum 150.000 kr. útborgaðar, sem hljómaði óeðlilega lítið sem mánaðarlaun, enda höfðum við hinir fengið mun hærra. Svo talaði hann við fólk á skrifstofunni til þess að fá skýringar og þá kom í ljós að hann hafði ekki skilað inn skattkorti, sem var kannski ekkert skrýtið, því enginn hafði sagt honum neitt um það. Eftir það kom hann til mín og sagði: "Hey Gúmmí, they tell me I have to get this skatkort...this is true?!" og ég gat staðfest að það væri rétt.

Einn daginn sagði annar samstarfsmaður honum frá áramótunum á Íslandi, að þau væru mögnuð og lýsti flugeldasprengingum og partýhaldi með miklum tilþrifum fyrir honum. Eftir smáskammt af fjálglegum lýsingunum greip sá pólski inn í og sagði "aaa, you mean silvester time?" og hinn samstarfsmaðurinn hló bara og sagði "silvester time, what the fuck is that?". Þá reyndi sá pólski að útskýra það fyrir honum að hann ætti við áramótafögnuð eða áramót og hinn skildi um leið. Síðan skrapp hinn samstarfsmaðurinn frá. Sá pólski virtist ekki viss um að það hefði alveg komist til skila hvað "silvester time" væri og tók upp krítina sína og skrifaði á gráa steynsteypuna inni í kerskála "2006 -> 2007", benti á það og sagði við mig "you know Gúmmí, when there is maybe 2006, an then there comes 2007...that is silvester time".

Þetta er það helsta sem ég man eftir en það var fleira gull sem kom frá þessum ágæta manni.

Er Sylvester Stallone forsenda góðra áramóta í Póllandi?