fimmtudagur, 19. júní 2008

Um EM og umfjöllun RÚV

Jæja, enn einn rosalegur leikur að baki á EM í fótbolta. Sennilega er þetta besta keppni sem ég hef séð. Fyrsta umferðin var ekkert spes á heildina, fyrir utan stórsigur Hollendinga á Ítölum. Það er aldrei leiðinlegt að sjá Ítali jarðaða á velli, að ekki sé talað um þegar það er gert með slíkum töktum.

RÚV hefur haldið ágætlega utan um keppnina en þó eru vissir menn að lýsa leikjum sem ættu bara að vera heima. Hlutdrægnin er á köflum gjörsamlega óþolandi. Lýsarnir í kvöld voru of hliðhollir Þjóðverjum og það var dómarinn líka. Sambærileg brot liðanna fengu ólíka meðferð, Þjóðverjar komust upp með meira. Það versta var hins vegar þegar Ballack kom Þjóðverjum í 3-1 með kolólöglegu marki, þar sem hann hrinti Ferreira mjög greinilega svo hinn síðarnefndi missti jafnvægið. Gummi Torfa (sem er einn sem ætti að vera heima en ekki að lýsa) talaði um að hann hefði "stuggað aðeins við honum", enda á bandi Þjóðverja. Portúgalir urðu ráðvilltir í kjölfarið og fóru að skjóta á markið allt of snemma í stað þess að spila sig í gegnum vörn Þjóðverja eins og þeir voru búnir að gera nokkrum sinnum í leiknum.

Versta dæmið um hlutdrægni lýsenda er samt ekki þessi leikur, þegar Adolf Ingi og Willum lýstu leik Ítala og Rúmena lýstu þeir eingöngu út frá sjónarhorni Ítala, sögðu hvað Ítalirnir þyrftu að gera, ættu að gera, og veltu síðan framhaldinu fyrir sér hjá þeim. Rúmenar virtust ekki vera til í orðabók þeirra félaga. Adolf hrópaði líka "VÍTI!" eða VÍTASPYRNA!" þrisvar að mig minnir undir lok leiksins þegar Ítalir köstuðu sér niður til að fiska. Ekki sérstaklega fagmannlegt. Nokkuð er um að menn ákveði fyrir fram hverjir séu bestir, Ítalir eru "frábærir" af því að þeir eiga stærri sögu á stórmótum en Rúmenar, það sama má segja um Frakka, sem í raun voru sendir heim með skottið á milli lappanna í þessarri keppni. Þó vinna lið ekki leiki á fornri frægð og forn frægð er ekki ávísun á góðan bolta. Svo virðist líka oft gilda lögmálið fleiri þekktir leikmenn í liði = betra liðið. Þetta sást t.d. í upphitunarþætti Þorsteins J. kvöldið fyrir keppni, þegar talað var um Englendinga stóran hluta af þættinum þrátt fyrir að þeir séu ekki einu sinni með.

Ég hef horft á tvo leiki á BBC, í stað þess að hlusta á Snorra eða Adolf lýsa. Þar má yfirleitt treysta á fagmannlega umfjöllun, kempur að lýsa og slíkt og hlutleysi í hávegum haft með sárafáum undantekningum.

Einn maður hefur borið af í lýsingum á RÚV, hann heitir Valtýr Björn. Sérstaklega fannst mér hann fara á kostum í besta leik keppninnar hingað til, Holland - Frakkland. En umfram allt, frábær keppni og ég vona að Spánverjar jarði Ítali á sunnudagskvöld, því fyrr sem þeir fara heim, því betra. Held mig við spána um sigur Spánverja í keppninni. Annars græt ég ekki ef Hollendingar hampa titlinum, sérstaklega ef þeir halda áfram að sína sömu meistaratakta og hingað til. Svo hef ég reyndar oftast haldið með þeim á stórmótum.