Gott veganesti út í helgina
Þegar ég keyrði út úr bænum á föstudag fyrir verslunarmannahelgi varð mér litið á steypuveginn neðan við Esjurætur sem hefur frá því að ég man eftir mér lengst af haft áletrunina:
FLATUS LIFIR! (síðar "Flatus lifir enn!")
en sú áletrun hafði einmitt verið hulin með risauglýsingu frá sparisjóði þegar ég fór í veiðiferð með hóp af góðum drengjum fyrstu helgina í júlí. Þá vorum við allir í bílnum sammála um að þetta væri svívirða og kom til tals að fara einhverja nóttina og smella áletruninni góðu á veginn aftur, þótt enginn okkar eigi feril að baki í veggjakroti. Þó vissi enginn okkar hver eða hvað Flatus væri. Ég ákvað að gúgla "Flatus lifir" og fann umræður um hvað þetta þýddi. Fljótt á litið virtist það umdeilt og talsvert á reiki þótt ýmsir hafi þóst vita hið sanna í málinu. Það er líka betra þannig, ef enginn veit með vissu hið sanna um söguna að baki eða merkinguna.
Þegar ég fór út úr bænum um verslunarmannahelgi sá ég ekki áletrunina, en hún var komin á sinn stað þegar ég ók framhjá á sunnudagskvöld, sem var talsverður léttir, enda veitir hún öryggiskennd. Óvissuástand ríkir í þjóðfélaginu ,efnahagsástand fer versnandi, stór gjaldþrot, uppsagnir og svo framvegis. Við slíkar aðstæður er smá huggun harmi gegn að vita þó að Flatusinn lifir hvað sem á dynur. Flatusinn lætur ekki banka eða aðrar kapítalískar gróðamaskínur drepa sig.
Nú básúna sumir þá skoðun sína að "varðveita beri 19.aldar götumynd Laugavegarins", ekki síst borgarstjórinn sjálfur. Margir hafa bent á tvískinnunginn í þeim hugmyndum, þar sem sárafá hús á Laugavegi séu frá 19.öld. Málið er líklega það að "20.aldar götumynd" hljómar ekki nógu tilkomumikið, það er of stutt síðan tuttugasta öldin var. Þessar verndunarhugmyndir ná ekki síður til bölvaðra hjalla (sem tilheyra meintri 19.aldar götumynd), en flottra húsa. Þetta er því allt hið undarlegasta mál.
Spurningin er sú hvort ekki væri nær að byrja á að friða áletrunina "FLATUS LIFIR!" á steypuveggnum en að standa í þessu rándýra brölti í miðbænum. Hvað segir borgarstjórn við því? Ólafur? Hanna Birna? Gísli Marteinn? Hvaða siðferði hafið þið? - svo ég noti orð Árna Johnsen frá því um árið.
|