"Sveittur göltur reyndi að pranga inn á mig láni"
Ég hjóla til vinnu í sumar. Leiðin er 6,5 km og meðfram Sæbrautinni. Reglan er sú að setja upp gleraugun og fara í endurskinsgulan vinnustakk áður en lagt er í hann, ásamt því að setja upp býsna aulalegan hjálm. Fyrstu vinnudagana reyndi ég að taka strætó en það reyndist vera algjör vitleysa því þá þurfti ég helst að vera lagður af stað 50 mín. áður en ég átti að mæta. Að jafnaði tekur 25 mínútur að hjóla, auk þess sem ég þarf ekki að bruna um einhverja óþarfa ranghala, eins og með strætó, hledur get farið beina leið.
Í dagblöðunum eru oftast nokkrar síður helgaðar "Heilsu og lífsstíl" eða álíka. Það eru undantekningalaust með lélegustu síðum blaðanna. Eina sem ég man eftir að sé lélegra eru öftustu síðurnar sem greina frá því hvort Britney snoðaði sig, var full eða dópuð um helgina eða allt þrennt, eða frá áhyggjum af yngri systur Lindsey Lohan - það stefnir víst bara í óefni með hana. Gæti gengið lengra en eldri systirin í ruglinu...Á "Heilsa og lífsstíll" síðunum má einkum finna örstutta og innihaldslausa texta. Dæmigerð klausa hljómar einhvernveginn svona:
Gaman í berjamó
Nú er berjatíminn genginn í garð. Þá getur öll fjölskyldan farið í bíltúr út fyrir borgina í berjamó. Að tína ber gefur góða og holla hreyfingu og blessuð börnin hafa líka svo gaman að því. Berin má nota í sultur, saft eða bara ein sér, með smá rjóma!
Á þessum sömu síðum er oft rekinn áróður fyrir hjólreiðum og textinn yfirleitt settur í það ljós að hjól sé einhvers konar allsherjar lausn sem fararskjóti. "Krökkunum finnst gaman að hjóla" - "Öll fjölskyldan getur farið saman út að hjóla" - "Hjólreiðar eru hollar og svo þarf ekkert að borga fyrir dýran bensíndropann!" - "Sparnaðurinn finnst fljótt á buddunni!" og svipaðar setningar má finna í slíkri umfjöllun.
Hjól eru langt frá því að vera einhver allsherjar lausn. Foreldri sem þarf að skutla krökkum og dóti hingað og þangað gerir það ekki á hjóli. Bankastarfsmaðurinn sem býr í Grafarvogi hjólar ekki í vinnuna niðri í bæ í jakkafötunum. Það virkar varla mjög vel að vera löðursveittur í því starfi, eða hvað? "Heyrðu, það var einhver löðursveittur göltur í bankanum að kynna fyrir mér það sem hann kallaði lán á afar hagstæðum kjörum""
"Og ætlarðu að taka lánið?"
"Nei, maður tekur nú ekki mark á sveittum göltum"
En flest er hægt með skipulagi, skv. þessu.
|