Það kemur ekki fyrir mig
Að fara niður í bæ á skrall og týna yfirhöfn og síma er nokkuð sem kemur ekki fyrir mig. Ég passa upp á hlutina. Ég legg ekki símann frá mér einhvers staðar í reiðileysi og skil hann eftir. Ég hef skipulag á þessu, símann alltaf í sama vasa og tékka nokkuð reglulega á því hvort hann er á sínum stað eins og veski og lyklar.
Það var samt nákvæmlega þetta sem kom fyrir um helgina hjá mér, ég týndi farsíma og jakka niðri í bæ. Fattaði það ekki einu sinni fyrr en daginn eftir. Þá var ekkert annað að gera en að hringja á þá staði sem ég fór á. Enginn staðanna þriggja sagðist hafa hlutina tvo. Fór til öryggis á staðina líka og spurðist fyrir, en án árangurs. Ég rifjaði upp hvar ég hefði tekið upp símann síðast og mundi að þar hafði ég líka lagt hann frá mér á borðið. Svo hafði ég staðið upp frá borðinu og vinur minn líka til þess að fara á barinn, líklega hef ég þá skilið símann eftir á borðinu. Fólk á næsta borði sýndi af sér nokkuð undarlega hegðun eftir á að hyggja, sem ég setti samt ekki í samhengi þá, enda hugsaði ég ekkert út í hvort ég væri með símann eða ekki. Það fólk liggur því undir vissum grun en ég get líklega afskrifað símann. Ætla samt að gera aðeins meiri leit að honum, ef hann verður ekki fundinn í vikulok fæ ég mér nýjan.
Fyrsta verk í leitinni var að sjálfsögðu að hringja í símann. Þá komst ég að því að enn var kveikt á honum en enginn svaraði. Það þýðir að ekki var búið að skipta um kort í honum. Nú tveimur dögum seinna kemur hins vegar strax talhólf, sem þýðir að hann er rafmagnslaus eða að búið er að skipta um kort. Ég geri mér samt veika von um að góma einhvern talandi í símann minn og í jakkanum mínum úti á götu, það væri skemmtilegast.
Þetta þýðir semsagt að það næst ekki í mig í farsíma sem stendur. Fólk sem á erindi við mig verður að gera það eftir öðrum leiðum. Ég er feginn að hafa þó ekki týnt veski og lyklum líka. Svo verð eg bara að vona að ég hafi ekki gleymt vitinu líka í miðborginni á aðfararnótt sunnudags.
|