þriðjudagur, 29. ágúst 2006

Shawashama kebab

Tók strikið niður Strikið í dag (Hefði höfundur Spurningar dagsins í Fréttablaðinu getað orðað þetta betur?). Eftir langan gang virtist segull í maganum leiða mig á lykt af kebabi. Ég rann á lyktina. Shawashama kebab. Orð sem enginn veit hvað þýðir og "kebab" skeytt aftan við. Hljómar ekki dónalega.

Ég gæddi mér á kebabinu og niðurstaðan er sú að kebab er vanmetnasti skyndibiti heims í dag. Þetta var frábært kebab. Hamborgarar, pítsur og Subway verða þreytandi til lengdar. Hví ekki að fá sér kebab í hádeginu og kebab á kvöldin? Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin er mjög vafasamur matseðill, en kebab, ja, hví ekki?

Það vantar aukið úrval af kebabi á Íslandi.

Áðan hjólaði ég á Fisketorvet. Hjólaði ég á kvenhjóli. Systir mín hjólaði á öðru hjóli. Það var rigning og myrkur og meinlegir skuggar og trukkur brunaði framhjá og skvetti vatnspolli yfir mig, ég lét hann heyra það, en hann heyrði ekkert, hann var farinn lengra út í rigninguna og myrkrið. Nú veit ég hvernig er að hjóla í Danmörku.