mánudagur, 4. febrúar 2008

Super Bowl

Í gær var bein útsending frá úrslitum í Bandaríska fótboltanum. Til þess að vera maður með mönnum stillti ég inn rétt fyrir leik og beið iðandi eftir þessum heimsviðburði. New York Giants og New England Patriots mættust. Spekingarnir voru mættir inn í stúdíó og ræddu málin með kaffi og kleinur undir dynjandi rappmúsík. Giants voru "underdogs" að sögn spekinganna, svo ég ákvað að halda með þeim.

Leikar hófust, gríðarleg spenna, svo var allt stopp eftir nokkrar sekúndur. Auglýsingahlé voru gerð hvað eftir annað og spekingarnir gripu inn í þess á milli inni í stúdíó. Leikurinn virtist aldrei vera í gangi nema svona eina mínutu í senn, svo var stoppað. Hvers konar sjónvarpsefni er þetta?

Leikmenn virtust sumir vera feitir, sem sjaldgæft er að sjá i keppnisíþróttum. Síðan voru þeir margir málaðir í framan með stríðsmálningu, sem var nokkuð kjánalegt. Ég gafst upp á að horfa þegar annar leikfjórðungur var nýhafinn, engu nær um það fyrir hvað þessi viðburður er svona vinsæll.