sunnudagur, 17. febrúar 2008

Dagar Benitez taldir hjá Liverpool

Í dag er Liverpool, sigursælasta lið Englands frá upphafi, orðið aðhlátursefni um heim allan. Knattspyrnustjórinn Rafael Benitez tekur ótrúlega handahófskenndar ákvarðanir við byrjunarliðsval hvað eftir annað og það sama má segja um innáskiptingar. Menn nenna varla að vera að standa sig vel í leikjum þegar þeir vita ekkert hvort það þýði fleiri byrjunarliðsleiki í kjölfarið. Dirk Kuyt og John Arne Riise hafa t.d. verið eins og beljur á svelli svo til allt tímabilið, en það hindrar ekki að þeir fái hvern leikinn á fætur öðrum í byrjunarliðinu og geta leyft sér að vera drulluslakir hvað eftir annað.

Benitez er að verða eins og villti Villi borgarfulltrúi. Gerir síendurtekin "klaufaleg mistök" en einn og einn reynir samt ennþá að verja þá. "Benitez vann nú Meistaradeildina með liðið 2005!" segja menn til marks um ágæti hans sem þjálfara. Vissulega mjög mikið afrek með þá leikmenn sem hann hafði þá. En málið er að það er ekki hægt að lifa endalaust á fornri frægð. Það þýðir ekkert að ætla að vinna Meistaradeild 2005 og skemma síðan liðið.