miðvikudagur, 8. desember 2004

Myndir sem vert er að framleiða

Hef hug á því að hætta í skólanum og hefja gerð hryllingsmynda. Ég hef séð Freddy vs. Jason þannig að ég ætti nú að kunna sitthvað í slíku. Nú hef ég lesið mikla líffræði fyrir líffræðiprófið sem ég tók í dag. M.a. las ég um veirur, en það eru víst ekki eiginlegar lífverur heldur bara e-r óbjóður. Þær setjast utan á frumur, "bíta" þær og sundra prótínvegg frumnanna. Þær sprauta síðan eigin DNA inn í frumurnar og sýkja þær. Eftir það geta þær fjölgað sér. Og maður spyr sig, þarf ekki að gera hryllingsmynd um veiru sem lítur svona út og festir sig utan á fólk og sýkir það til dauða. Hleypur um bandaríska stórborg og sýkir alla á vegi sínum. Hvílíkur söguþráður. Kannski hef ég séð þetta í einhverju, kannski er þetta alls ekki nýtt. Jæja.

Svo er það hin myndin. Ég las líka um sýklahernað, ýmsar veirur og bakteríur sem menn hafa notað í hernað. Talað var um bólusóttarveiruna og að hún væri útdauð en ef einhver kæmi fram með hana núna gæti sá hinn sami stráfellt allt mannkyn á skömmum tíma. Þar er handritið komið: Hinn illkvitni dr. Sívertsen á bólusóttarveiru á tilraunastofunni, engan hafði grunað það! Fylgjumst með tryllingslegum áætlunum hans um að drepa gjörvallt mannkyn með bólusótt. Getur Hetjan (leikin af Rob Schneider) bjargað mannkyninu frá glötun. Sjáðu þessa og hárin rísa!