mánudagur, 27. febrúar 2006

Hélt hún væri að hlusta á íslenskt já takk! en annað kom í ljós

Man allt í einu eftir atriði sem ég ætlaði að vera löngu búinn að skrifa. Ég hef áður skrifað um það hve amma mín er frábær. Ég ætla bráðum að veita henni bikar, gullmedalíu og fleiri verðlaunagripi fyrir það.

Um daginn fór ég í heimsókn til afa og ömmu. Ég sat í eldhúsinu ásamt ömmu og hún var að fræða mig á einhverju sem ég man ekkert hvað var, nema hvað, allt í einu er eins og hún verði fyrir eldingu eða eitthvað, hún gerir smá hlé á máli sínu og segir síðan:
"HEYRÐU! Ég kveikti á útvarpinu í morgun, og það var spjallþáttur í gangi, sem einhver grallarakerling stjórnaði. Svo allt í einu segir hún "ókei"...ÓKEI?!, ég hélt ég væri að kveikja á íslensku útvarpi og svo er bara sagt "ÓKEI". Og þá slökkti ég strax aftur!"

Þetta fannst mér gríðarlega hressandi. Kannski að útvarpsmenn reyni að vanda mál sitt hér eftir svo amma missi ekki vitið af bræði.

sunnudagur, 26. febrúar 2006

Súkkulaðistílar

Var á námskynningunni í HÍ. Það sem bar hæst var að lyfjafræðinemar afhentu mér og öðrum Guðmundi viðbjóðslega súkkulaðistíla og þótti voða voða fyndið. Okkur þótti þeir bara glataðir og okkur þótti þakið á Öskju líka glatað. Síðan sögðu matvælafræðinemar okkur að lyfjafræðinemarnir væru glataðir, en það vissum við reyndar fyrir.

Falskur stúdent?

Síðustu nótt dreymdi mig að ég væri að fara í stúdentspróf, síðan var ég allt í einu orðinn stúdent. Í draumnum var sem sagt hraðspólað yfir prófin sjálf. Ég veit ekki alveg hvort ég var orðinn stúdent eða hvort ég var bara búinn að setja upp stúdentshúfu án þess að vera stúdent og var svona sáttur með það. Það kom ekki fram.

Kannski að maður prófi á næstu dögum að setja upp stúdentshúfu og athuga hvort það gerir mann rosalega sáttan.

Edrú gaurinn

Er búinn að vera edrú gaurinn í tveimur partýum í röð.Í bæði skiptin var það bara þó nokkuð fínt.

föstudagur, 24. febrúar 2006

Skíta-Reykjavík

Reykjavík er glötuð borg. Það er glatað að koma heim til sín dauðþreyttur á föstudegi og geta ekki lagt sig fyrir brjáluðum byggingaframkvæmdum, og ekki bý ég í nýbyggingahverfi. Síðan er glatað að standa í tæpan klukkutíma í röð í Bónus og fokking andskotans fíflið fyrir aftan mann er alltaf að ýta körfunni á lappirnar á manni og mann langar helst að tryllast og ausa úr skálum reiði sinnar yfir það en hættir við til að missa ekki mannorðið.

Það var samt eitt jákvætt, ég var bara í tveimur tímum í skólanum í dag. Magnað.

Ég ætla að flytja út í sveit og byggja bjálkakofa og stunda sjálfsþurftarbúskap. Gegt.

fimmtudagur, 23. febrúar 2006

Yfirborðskennd samskipti

Alltaf þegar ég sé fréttir af fundum íslenskra ráðamanna við erlenda ráðamenn hef ég á tilfinningunni að það séu gagnslausustu fundir í heimi með yfirborðskenndustu samskiptum í heimi. Í gær var einmitt fjallað um einn slíkan fund, þegar Halldór Ásgrímsson fór í Downing-stræti 10 að ræða við Tony Blair. Í fréttinni var m.a. sagt:

"Vel fór á með þeim Halldóri og Blair"
Þetta er sagt í hvert einasta skipti sem ráðamenn hitta annarra landa ráðamenn, að vel hafi farið á með þeim Hvenær fær maður að sjá slagsmál? Síðan var sagt að Blair hefði lýst ánægju sinni með fjárfestingar Íslendinga á Bretlandseyjum og að Halldór hefði svarað því til sposkur á svip að hann vildi gjarnan að Bretar fjárfestu meira á Íslandi:
"I am very happy about the Icelanders investments here in Britain"
Halldór: "Hahaha, yes, I would like it very much if the British would invest more in Iceland"

Síðan var sýnt þegar þeir röltu um sali Downing-strætis glottandi og blaðrandi.

Þetta var það markverðasta sem sagt var frá í fréttinni ásamt því að Blair teldi líklegt að Bretar tækju upp Evru einhvern tímann í framtíðinni.

Niðurstaða: Blair er ánægður með að Íslendingar kaupi í Bretlandi og Halldór segist vilja að Bretar fjárfesti á Íslandi. Blair heldur að Bretar taki upp Evru. Halldór heldur að Ísland þurfi að vera viðbúið því. Þetta mun án efa koma að góðum notum fyrir báðar þjóðir í framtíðinni. Já.

Svo man ég líka eftir því þegar Ólafur Ragnar hitti Li Peng eða einhvern álíka gáfulegan Kínverja og "þeir voru sammála um að samstarf Íslands og Kína hefði verið gott í gegnum tíðina og vildu báðir að það yrði enn meira og betra í komandi framtíð". Síðan voru þeir auðvitað sýndir með feiksmælin út að eyrum.

Kannski er ástæða þess að þessir fundir eru svona yfirborðskenndir að enskan hjá íslenskum ráðamönnum lætur þá oft líta út fyrir að vera fjölfatlaða. Kannski er ástæðan önnur.

þriðjudagur, 21. febrúar 2006

Forlögin

Ég hef aldrei trúað sérstaklega mikið á forlög eða stjörnuspár eða aðra vafasama hluti í þeim dúr.

En eitt trúi ég á: RÚTÍNUNA.

Rútínan felst í því að þegar Liverpool keppir í Meistaradeildinni förum ég og Tom á Glaumbar að fylgjast með leikjunum (fáum okkur einn bjór fyrir hvorn hálfleik og oftast borgara á Nonnabita eftir leik). Alltaf og ævinlega hefur þessi Rútína skilað jafntefli eða sigri Liverpool og þeir hafa komist áfram í næstu umferð. Rútínan skilaði sigri í Meistaradeild Evrópu í fyrra, en í fyrra var einmitt líka árið sem Rútínan hófst.

Ef sigur í Meistaradeildinni í fyrra er ekki næg sönnun mætti kannski nefna að Liverpool tapaði í kvöld 1-0 fyrir Benfica en það var einmitt líka í kvöld sem Rútínunni var ekki fylgt eftir vegna þess að ég er veikur (með iðandi hálsbólgu og þrumandi hausverk og ólgandi hita annað slagið) og sá mér ekki fært að mæta. Það er alveg 100% gefið að þetta fokking Benfica-lið hefur sent hingað útsendara sinn til að smita mig og eyðileggja þar með Rútínuna góðu.

En þetta er engan veginn búið, seinni leikurinn er eftir og þá komast þessir andskotar ekki upp með bellibrögð.

e.s. Það mætti kannski nefna það að þessi orð eru rituð af veikum manni sem er með óráði.

mánudagur, 20. febrúar 2006

Hvernig á ekki að stjórna sjónvarpsþætti?

Þeir sem vildu vita það vita það núna ef þeir sáu Garðar Thór Cortes og Brynhildi Guðjónsdóttur stjórna úrslitakeppni um framlag Ísl. til Eurovision. Þessi atriði eiga kynnar ekki að gera...

...þegar þeir taka viðtöl:
1. Segja eitthvað fáránlegt í stað þess að spyrja spurningar og þruma síðan míkrófóninum að viðmælandanum, sem við það verður mjög hlessa og veit ekki hvað hann á að segja.

2. Leyfa viðmælanda að ljúka máli sínu, ekki bara leyfa honum að segja eina setningu og kippa síðan míkrófóninum frá honum og láta hann tala út í loftið.

3. Ekki kippa míkrófóni snöggt að sér, hlægja geðveikislega í hann (HAHAHAHAHAHAHAHAHA!) og bomba honum síðan aftur að viðmælandanum. Við þetta getur viðmælandinn gjörsamlega dottið úr jafnvægi.

...þegar þeir kynna:
1. Ekki segja rosalega lélega brandara og hlægja tryllingslega að þeim sjálfur ef þeir vekja ekki mikla lukku hjá áhorfendum.

2. Ekki hálfsyngja/söngla alla kynninguna.

3. Ekki brosa ótrúlega geðveikislega og mikið út fyrir upp úr þurru


Fleiri atriði man ég ekki í bili. Þetta var reyndar ekki alslæmt því það var nánast óborganlegt hve slappir kynnar þau voru og hlegið dátt að, a.m.k. í partýinu sem ég var í. Sennilega spilar reynsluleysi þeirra af þáttastjórnun inn í frammstöðuna og eru þau að nokkru leyti afsökuð með því.

Djarfur

Ég ætla að gerast svo djarfur að spá Liverpool sigri í Meistaradeild Evrópu, sigri í Ensku bikarkeppninni og 2.sæti í ensku úrvalsdeildinni. Vill einhver mótmæla?

miðvikudagur, 15. febrúar 2006

Púkó

Fátt veit ég meira púkó en orðið púkó.

Ekki oft sem maður fær árshátíðarmiða á 1000 kall. Ekki oft sem útlensk hljómsveit kemur að spila á árshátíð framhaldsskóla.

>Allt í einu er komið nothæft sjónvarp aftur á heimilið.

Tilvitnun dagsins er úr laginu Bjarni bróðir af Megasukk plötunni, þar sem fjallað er um látinn bróður:
"Í arfinn tók ég eftir hann, útmigna sæng og grallarann"
Sennilega hafa engar deilur verið um þann arf.

Fleira er ekki fréttum.

þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Tantra - erotic drink

Select er farið að selja Tantra - erotic drink og konan á Select mælti með drykknum við okkur bandýdrengi áðan. Vafasamt. "Hafiði smakkað þetta strákar? Rosalega gott". Vafasamt. Svo er það þessi sama kona sem ávarpar mann alltaf "elskan" þegar hún afgreiðir. Vafasamt.

Þetta gera þá samtals þrjú vafasamt af fjórum mögulegum, sem er mjög vafasamt.

sunnudagur, 12. febrúar 2006

Múslimadeilan

Margir virðast haldnir ýmsum ranghugmyndum og verða að halda sig við þá skoðun sem þeir mynduðu sér í upphafi, þrátt fyrir að þeir fái nýjar upplýsingar.

1. Múslimar eru ekki allir ofsatrúarmenn. Þótt þeir fari í mótmælagöngur eru þeir ekki allir með sprengjur. Örfáir eru með sprengjur eða annars konar óeirðir sem koma óorði á allan hópinn.

2. Vesturlandabúar eru ekki góði karlinn. Hverjir réðust inn í Afganistan? Hverjir réðust inn í Írak? Hvað hefur valdamesti maður heims, forseti Bandaríkjanna, ekki gert í nafni trúar? Hversu mörg atkvæði hefur hann á bakvið sig? Hversu margar "staðfastar" þjóðir?

3. Vilja Íslendingar vera dæmdir fyrir verk George Bush eða þjóðernis/nasista -flokka víða um lönd? Á að dæma múslima fyrir verk ofsatrúarmanna? Vilja íslendingar yfirhöfuð vera flokkaðir undir sama hatt og Bandaríkjamenn og Evrópubúar, sem Vesturlandabúar?

4. Sá vægir sem vitið hefur meira.

laugardagur, 11. febrúar 2006

Skákæfingar

Við bekkjarbræður sleiktum út um um daginn þegar við sáum auglýstar skákæfingar í skólanum enda erum við sólgnir í allt sem tengist ofbeldi. Jósep var alvarlega að hugsa um að leggja júdóið á hilluna og snúa sér alfarið að þessu.

Skákæfingar eru væntanlega ný bardagalist úr smiðju Japans, sem gengur út á að kæfa menn á ská. Hingað til hefur tíðkast að árásarmaður snúi beint að fórnarlambi þegar hann kæfir það. En nú hafa Japanir fundið upp þetta frábæra nýja afbrigði sem er bæði fljótlegra og auðveldara í notkun, ef maður kann það á annað borð.



Töff, en ekki jafntöff og skákæfingar.

Svona er unga kynslóðin í dag. Hún vill ekki neitt nema að það tengist ofbeldi, klámi eða fíkniefnum. "Heimur versnandi fer" segir gamla fólkið og hnussar.

Ef það heitir menntun, vinna, eða framtíðaráætlanir, dregur unga fólkið í dag bara sængina upp fyrir haus og segir sárþjáð: "Neeeeeeiii".

Já, það var allt betra í gamla daga.

föstudagur, 10. febrúar 2006

Fjör

Iðandi fjör, það er bara komin ný plata frá Belle & Sebastian. Dúndrandi? Hlýtur að vera.

Næsta færsla verður vonandi innihaldsríkari.

fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Ofvirkni

Ég er að reyna að klastra saman ritgerð í félagsfræði sem á að fjalla um ESB, EFTA og EES. Ég sé eftir að hafa valið þetta efni, of mikið um reglugerðir. Þetta gekk frekar hægt þangað til ég setti brjálaða og tryllta músík á fóninn, þá stressaðist ég og fór að berja lyklaborðið eins og sturlaður maður.

En nú er ég farinn að berja lyklaborðið í röngum tilgangi, ritgerðin þarf að ganga fyrir. Fokk es.

Hvað er hann að vilja upp á dekk?

Held að það hafi byrjað í fyrra, fárið út af einhverju liði sem kallar sig Antony And the Johnsons. Forsprakkinn er þessi Anthony, fáránlegur gaur með pottlok á hausnum. Hann hefur einstaka rödd, þetta er ekkert líkt öðrum söngröddum, svona titrandi væl. Það er eins og það sé orðið nóg nú til dags, ef tónlistarmenn skera sig mikið úr eru þeir frábærir. Eins og þegar hljómsveitarguttar eru í viðtölum og eru spurðir um hvaða tónlistarstefnu bandi þeirra fylgi: "Æ, við viljum eiginlega ekki flokka okkur í neina stefnu, þetta er í rauninni svona hipphoppskotið kanarokk með gospel- og jazzívafi". Oftast eru svona svör góð vísbending um að eitthvað glatað sé á ferðinni.

Ég heyrði í þessum töppum í útvarpinu áðan. Það er svona eins og þessi Antony hafi verið lokaður lengi inni einhvers staðar. Hann hafi farið að vola, eftir að hafa volað í svolítinn tíma hafi hann reynt að þróa volið út í söng, vol með söngívafi og þetta varð síðan útkoman. "Oo, hann hefur svo sérstaka rödd". Þótt þetta sé sérstakt, þýðir það ekki að það sé skemmtilegt. Sá hann líka á BBC á tónleikum og viðtöl inn á milli. Tónleikarnir voru ótrúlega leiðinlegir og í viðtölunum var Antony alltaf að reyna að vera krúttlegur og tala heimspekilega. Glataður gaur.

Hlustið frekar á:
Nýju Megasukk-plötuna
Mark Knopfler
The Who
Flashy Python (hægt að sækja nokkur lög hér),
síðan er þessi Sufjan Stevens gaur ágætur.
Fyrsta lagið með nýju verkefni Jack White úr White Stripes, The Racounters, lofar nokkuð góðu. Lagið heitir Steady As She Goes.

sunnudagur, 5. febrúar 2006

Matarhornið

Ristuð beygla með smurosti, sneið af malakoffi og afgangi af nautahakki. Nú eru tveir möguleikar í stöðunni:

1. Þetta er besta mataruppskrift sem hefur verið fundin upp í háa herrans tíð.

2. Mér finnst þetta bara gott vegna þess að ég er þunnur núna og veit ekki neitt.

Dæmi hver fyrir sig.