fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Hvað er hann að vilja upp á dekk?

Held að það hafi byrjað í fyrra, fárið út af einhverju liði sem kallar sig Antony And the Johnsons. Forsprakkinn er þessi Anthony, fáránlegur gaur með pottlok á hausnum. Hann hefur einstaka rödd, þetta er ekkert líkt öðrum söngröddum, svona titrandi væl. Það er eins og það sé orðið nóg nú til dags, ef tónlistarmenn skera sig mikið úr eru þeir frábærir. Eins og þegar hljómsveitarguttar eru í viðtölum og eru spurðir um hvaða tónlistarstefnu bandi þeirra fylgi: "Æ, við viljum eiginlega ekki flokka okkur í neina stefnu, þetta er í rauninni svona hipphoppskotið kanarokk með gospel- og jazzívafi". Oftast eru svona svör góð vísbending um að eitthvað glatað sé á ferðinni.

Ég heyrði í þessum töppum í útvarpinu áðan. Það er svona eins og þessi Antony hafi verið lokaður lengi inni einhvers staðar. Hann hafi farið að vola, eftir að hafa volað í svolítinn tíma hafi hann reynt að þróa volið út í söng, vol með söngívafi og þetta varð síðan útkoman. "Oo, hann hefur svo sérstaka rödd". Þótt þetta sé sérstakt, þýðir það ekki að það sé skemmtilegt. Sá hann líka á BBC á tónleikum og viðtöl inn á milli. Tónleikarnir voru ótrúlega leiðinlegir og í viðtölunum var Antony alltaf að reyna að vera krúttlegur og tala heimspekilega. Glataður gaur.

Hlustið frekar á:
Nýju Megasukk-plötuna
Mark Knopfler
The Who
Flashy Python (hægt að sækja nokkur lög hér),
síðan er þessi Sufjan Stevens gaur ágætur.
Fyrsta lagið með nýju verkefni Jack White úr White Stripes, The Racounters, lofar nokkuð góðu. Lagið heitir Steady As She Goes.