fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Borat og The Departed

Ég sé ástæðu til að fjalla um kvikmyndina Borat vegna þess oflofs sem hún hefur hlotið, einkum meðal gagnrýnenda. Gagnrýnendur hinna ýmsu fjölmiðla hafa ekki haldið hlandi yfir myndini. Yfirleitt rakka gagnrýnendur allar gamanmyndir niður en sú er ekki raunin með þessa. Einmitt þess vegna setti ég ákveðna varnagla við myndina áður en ég fór á hana - gamanmynd sem gagnrýnendur lofa, eitthvað hlaut að vera loðið við það.

Og viti menn, sú var raunin. Myndin er ekki "besta gamanmynd allra tíma" eins og einhver fjölmiðlagagnrýnandinn komst að orði (í fljótu bragði man ég t.d. eftir Jalla! Jalla! sem er óumdeilanlega betri. Hún er þó hin fínasta skemmtun og mínúturnar 84 voru elsdsnöggar að líða. Nokkrir ólgandi brandarar líta dagsins ljós en sumt er líka skot yfir markið. Gert er grín að sumum sem taka sig of alvarlega og þurfa mjög á því að halda að gert sé grín að þeim, t.d. hinir grafalvarlegu femínistar sem kappinn ræddi við.

Atriði með tveimur nöktum karlmönnum að slást í hótelrúmi og víðar var ansi mikið skot yfir markið. Að hverjum beindist það grín? Hver var tilgangurinn? Ég sá ekki annað en að hann væri eingöngu að hneyksla, ádeilan var engin og það þykir mér mjög grunnur tilgangur.

Niðurstaða og einkunn: Margir góðir punktar en líka skot yfir markið. 7,5.

The Departed sá ég fyrir tveimur vikum eða svo. Hún var mjög lengi að byrja og angraði það mig nokkuð. Þegar hún loksins byrjaði almennilega voru ýmis tvist og rjúkandi flétta. Endaði samt í fullmikilli fléttu fyrir minn smekk, eiginlega flækju. Leikur var góður.

Niðurstaða og einkunn: Fín spennumynd en hefur leiðan galla sem virðist vera kominn í tísku, að vera of löng. 8,0.