Strútastefnan
Veit að ýmsir sem að öllu jöfnu lesa þessa síðu nenna ekkert að fylgjast með þessum málum, en enginn er heldur skyldugur til að lesa það sem á eftir fer.Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifar í niðurlagi greinarinnar Við erum öll innflytjendur á síðu sinni:
"Íslenskt samfélag er orðið alþjóðlegra og opnara á síðustu árum. Hingað hefur komið fólk annars staðar að út heiminum sem hefur auðgað menningu okkar og sett skemmtilegan blæ á samfélagið. Áhrifin á matargerð, menningu. listir og margt annað hefur gert samfélagið ríkara en ella. Og hvaða leyfi hefur Jóni Magnússon til að nota orðið ?við? um alla Íslendinga? Ég vil ekki búa í samfélagi fordóma og kreddna - ég vil búa í alþjóðlegu samfélagi þar sem allir fá að njóta sín, hvaða trúar eða litarháttar sem er. Að því eigum við að vinna í sameiningu, búa til regluverk sem tekur á málefnum útlendinga þegar þeir koma til landsins, auka möguleika til íslenskunáms, ýta undir gagnkvæman skilning og virðingu á ólíkum lífsháttum og nýta okkur möguleikana sem felast í fjölmenningunni. Við eigum ekki að auka á fordóma, illvilja og öfund eins og þessir tveir talsmenn Frjálslyndra gerðu í dag."
Þarna gefur hún mjög sterklega til kynna að Frjálslyndi flokkurinn vilji ekki auðga menningu landsins, ekki gera samfélagið ríkara en ella o.s.frv. Og í sambandi við það sem ég feitletraði, er það eitthvað annað en þingmenn F hafa talað um, er það ekki einmitt hluti þess sem þeir hafa sagt? Var Steinunn kannski bara ekkert að hlusta?
Af því sem ég hef séð í umræðunum tala Frjálslyndir um að nýta hefði átt fyrirvara um að galopna landið til 2009 eða 2011. Röðin hafi verið röng, fyrst hefði átt að gera ráðstafanir til að taka á móti nýju fólki, og síðan að opna upp á gátt. Sú leið var ekki farin, fyrst var allt opnað og svo á í mjög litlum skrefum að taka vel á móti. 2000 manns af þeim fjölda sem hefur komið til landsins frá áramótum er hvergi á skrá og enginn veit hvað það fólk er að gera. Bendir það til þess að allt hafi verið vel undirbúið? Fréttir bárust af því fyrir skömmu að börn innflytjenda voru send heim úr skólum vegna þess að þau höfðu ekki kennitölu. Bendir það til þess að allt hafi verið tilbúið til að opna upp á gátt?
Ríkisstjórnin ákvað fyrir tveimur dögum að leggja 100 milljónir til íslenskukennslu. Að auki ákvað hún á dögunum að nýta fyrirvara gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu. Hvað er þetta tvennt annað en viðurkenning á málstað Frjálslynda flokksins? Ég veit að þeir munu samt aldrei viðurkenna að svo sé.
Hrafn Jökulsson sagði m.a. á Rás 2 í gær (Síðdegisútvarpinu) að hann óttaðist heift í garð útlendinga í svörum á síðu Magnúsar Þórs .Ég las þessi svör og kannski voru tvö eða þrjú sem bentu til rasisma. Þarna skrifa margir í skjóli nafnleysis og þar að auki er fráleitt að ætla að ummæli allra þar endurspegli viðhorf Magnúsar eða Frjálslynda flokksins yfirhöfuð. Vill Hrafn kannski skamma Framsóknarflokkinn líka fyrir það að Lalli Johns er yfirlýstur stuðningsmaður flokksins? Eða vill hann agnúast út í þann flokk sem nýtur mests stuðnings fanga á Litla hrauni?
Í sama þætti minntist Þorfinnur Ómarsson á að Jón Magnússon og Magnús Þór hefðu notað orðin "þetta fólk" og spurði hvaða fólk væri "þetta fólk". Margir virðast einmitt agnúast út í einstaka orð eða orðasambönd sem eru notuð en hafa minni rök gegn málstaðnum sjálfum. Að sjálfsögðu skiptir máli að virðing sé borin fyrir fólki í umræðunni. Hins vegar veit ég ekki alveg hvernig má tala um svo ýmsum háheilögum líki. "Erlent vinnuafl" er einnig orðasamband sem margir hafa agnúast út í F-lista fyrir. Frumvarpið sem um var rætt (þar sem ákveðið var að nýta ekki fyrirvara til 2009 eða 2011) fjallar um erlent vinnuafl, og það var ekki lagt fram af Frjálslyndum. Ég veit ekki hver hefur sagt að erlent vinnuafl geti ekki líka verið fólk. Mikill hluti umræðunnar fjallar einmitt um vinnu erlendra ríkisborgara hér og íslenska atvinnurekendur, og þá er enginn að segja að ekki sé um að ræða fólk. Tilheyrum við ekki öll hinum og þessum hópum sem eru kallaðir hitt og þetta til aðgreiningar? Sjálfum væri mér alveg sama hvort ég félli inn í hóp sem um væri rætt og í því samhengi væri t.d. talað um erlent/innlent vinnuafl vegna þess að málið snerist að miklu leyti um vinnu.
Ég hef týnt til nokkra stórkostlega frasa sem hafa notið mikilla vinsælda í umræðunum upp á síðkastið:
"Þeir ala á útlendingahatri!"
"Við vitum af fenginni reynslu að svona tal er bara byrjunin á öfgasinnuðum þjóðernisflokkum"
-Já! Ákveðum bara strax að Frjálslyndi flokkurinn verði öfgasinnaður þjóðernisflokkur af því að hann mun fylgja formúlunni sem "við þekkjum af fenginni reynslu".
"Þeir vilja loka landinu!"
-Hver hefur talað um að "loka landinu" hjá F?
"Þetta er stórhættulegur málflutningur!"
Margir eru farnir að minna mjög á strúta í þessari umræðu. Þeir stinga hausnum í sandinn og skjóta sér undan eðlilegum umræðum en kippa honum síðan upp úr með ákveðnu millibili til að hrópa einhvern hinna æðisgengnu frasa.
"Rasisti!"
Verði vart við rasisma í málflutningi Frjálslynda flokksins í innfl.málum, skal ég fyrstur manna gagnrýna hann. En ég ætla ekki að taka þátt í órökstuddum upphrópunum.
|