fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Ómaklega vegið að Magnúsi Þór Hafsteinssyni

Hreint ótrúlegt hefur verið að fylgjast með umræðum um innflytjendamál undanfarna daga. Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, vakti máls á innflytjendamálum á þingi. Þar talaði hann m.a. um að ekkert hefði gerst í þessum málum síðan nefnd var skipuð um málið, nefnd sem átti að vera búin að skila áliti fyrir nokkru. Á fjárlögum næsta árs er hvergi minnst á krónu til tiltölulega nýtilkomins Innflytjendaráðs. M.ö.o. stjórnvöld virðast enga stefnu hafa í málefnum innflytjenda. Engar ályktanir hafa komið fram um hvernig skuli bæta íslenskukennslu fyrir innflytjendur, engar áætlanir um hvernig hjálpa skuli fólki að aðlagast. EKKI NEITT.

Magnús spyr hvað eigi að gera þegar hægir á þenslunni og vinnuframboð minnkar á ný. Hann bendir á að margir innflytjendur hafa ekki forsendur til að kynna sér réttindi sín, m.a. vegna skorts á íslenskukunnáttu. Hann bendir á að fjöldi fyrirtækja nýtir sér það og ræður erlenda borgara á taxta sem eru jafnvel undir lögbundnum lágmarkslaunum. Réttindi um vinnutíma eru þverbrotin og svo framvegis.

Ég spyr, hvar er rasisminn? Hvernig væri nú að það fólk sem hefur haft uppi upphrópanir um rasisma í fjölmiðlum, á kaffistofum, á víðavangi o.s.frv. færi rök fyrir máli sínu?

Getur ef til vill verið að margir séu að flýja umræðuna? Þeim finnst hún einfaldlega óþægileg og beita þá þeirri leið að hrópa "rasisti! rasisti! úlfur! úlfur!". Ég fagna því að Magnús Þór hafi vakið máls á innflytjendamálum og ágætt væri að ýmsir færu að þrífa bjálkana úr augunum á sér og færa rök fyrir upphrópunum sínum, það er það minnsta sem þeir geta gert.
--------------
UPPFÆRT kl. 01:06 föstudag, 10.nóv.
Bendi sérstaklega á í þessu samhengi mjög góða grein Margrétar Sverrisdóttur um málið auk að sjálfsögðu upphafsræðu Magnúsar Þórs í utandagskrárumræðum í þinginu. Eftir mjög gaumgæfilega leit í þessum skrifum fann ég ekki meintan rasismann.