miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Hræðsluáróður og kaktuskók

Í Silfri Egils á sunnudaginn talaði Egill við Steingrím J. Sigfússon. Þar talaði Steingrímur m.a. um eftirlit lögreglu með netinu upp að vissu marki og vísaði til aðferða sem notaðar hefðu verið í Noregi og Grikklandi (ef ég man rétt) með ágætum árangri. Mikið fjaðrafok hefur skapast vegna þessa, Guðmundur Steingrímsson gefur í skyn að Steingrímur vilji koma á fót allsherjar netritskoðun eins og í Kína. Björn Ingi Hrafnsson hefur einnig séð sér gott til glóðarinnar að ata Steingrím aur fyrir orð hans, talandi um "stóra bróður sem fylgist með hverju þínu skrefi" og fleiri meistaralega útúrsnúninga. Aldrei minntist hann á ritskoðun, reyndar svarar hann ásökunum ágætlega í Morgunblaðinu í dag.

Ögmundur Jónasson var í Kastljósi í gær vegna breytingatillögu sem hann lagði fram á þingi og snerist um að skattur á gosdrykki yrði ekki lækkaður eins og matvælaskatturinn 1. mars. Þetta skyldi að sjálfsögðu sérstaklega gert til að vernda blessuð börnin og þeirra tennur. Verð á gosdrykkjum er mjög hátt hér á landi en neyslan samt sem áður gríðarlega mikil. Hærra verð mun ekki skila minni gosneyslu barna og það ætti Ögmundur að vita. Ef hann vill endilega stýra neyslunni ætti hann frekar að leggja róttækari aðgerðir til, t.d. að umbúðir á gosdrykkjum væru eins og yfirborð kaktusplöntu. Saklausum börnunum og öðrum gosfíklum mundi fljótt lærast að láta slíka drykki eiga sig og fara undan í flæmingi eftir að hafa stungið sig nokkrum sinnum. Gosdrykkir gætu staðið ósnertir í hillum verslana og þjóðin blómstrað af heilbrigði í staðinn. Stórkostlegt!

Sigrastu á kaktusnum, þá færðu kók.

Jafnrétti

Í dag er 28. febrúar og síðasti dagur þess skrýtna mánaðar. Börn sem hafa í gegnum tíðina kosið að fæðast 29.febrúar eiga þannig ekki afmæli nema fjórða hvert ár. Börn sem hafa í gegnum tíðina kosið að fæðast 30.febrúar eru ekki til. Hvers eiga þau börn að gjalda?

mánudagur, 26. febrúar 2007

Sápuópera

Nú þegar Baugsmálið fyllir fréttatíma og blöð fimmtánþúsundasta daginn í röð finn ég fyrir söknuði eftir Smugudeilunni og forræðisdeilu Sophiu Hansen og Halim Al.

Mætti ekki endurvekja þessi mál til þess að koma á jafnvægi?

sunnudagur, 25. febrúar 2007

Völundarhús og borg

Nýlega hef ég séð Völundarhús skógarpúkans (e. Pan's Labyrinth) og Borg Guðs (á frummálinu: Cidade de Deus). Völundarhúsið þótti mér afbragðsskemmtun og Borgin einnig. Einkunnagjöf er þá sem hér segir:

Völundarhús skógarpúkans: 9,5.

Borg Guðs: 9,0.

laugardagur, 24. febrúar 2007

Flensa

Mig grunar að ég sé kominn með flensuna. Mæli ekki með henni.

föstudagur, 23. febrúar 2007

Glötun

Ef marka má fréttir stefnir veröldin eins og við þekkjum hana til glötunar. Ástæður:

1. Britney hefur snoðað sig.

2. Ronaldinho er orðinn spikfeitur.

3. Gunnar Birgisson og félagar láta greipar sópa í Heiðmörk.

miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Barcelona - Liverpool 1-2

Töluverða furðu vakti að Bellamy og Riise skyldu vera í byrjunarliði Liverpool fyrir leikinn gegn Barcelona í ljósi nýliðinna atburða (sem munu að vísu hafa verið kryddaðir nokkuð í fyrstu útgáfu fréttarinnar). Herbragðið reyndist hins vegar hárrétt hjá Benitez og Craig "kylfa" Bellamy jafnaði metin, 1-1, og áður en yfir lauk tryggði John "fórnarlamb/klöguskjóða" Riise verðskuldaðan sigurinn.

Þetta var einstaklega gott á lið Barcelona enda voru margir þeirra sífellt að reyna að fiska og því miður oft með góðum árangri. Heimadómgæsla dugði hins vegar ekki til og Barcelona-menn uppskáru eins og þeir sáðu á Nou Camp.

laugardagur, 17. febrúar 2007

Vandinn við formleg símtöl

Um daginn var ég viðstaddur umræðu um formleg símtöl, t.d. þegar þarf að hringja útaf atvinnuumsókn eða álíka (reyndar getur það sama átt við um formleg viðtöl sem fara ekki fram í gegnum síma). Viðstaddir sögðust almennt undirbúa slík símtöl sæmilega, helst með því að hugsa fyrir fram hvað skyldi segja auk þess að bollaleggja um hvað viðmælandinn segði, rétt viðbrögð við hverju útspili viðmælanda o.s.frv. - þannig má segja að fólk hafi ákveðið handrit að símtalinu í huga þegar hringt er.

Í slíkum símtölum kemur oftast upp sá vandi að viðmælandinn fer út fyrir handritið, þrumar út óvæntu útspili og þá þarf allt í einu að breyta handritinu í miðjum klíðum. Lítum á dæmi um slíkt símtal sem á sér þó enga stoð í raunveruleikanum, persónur jafnt sem orð eru uppspuni frá rótum og samhengi er lítið sem ekkert, en þó gæti það gefið gleggri mynd af því sem fjallað er um:

Gógó er menntaður viðskiptafræðingur og hefur nýverið sótt um vinnu hjá Viðskiptum ehf. Hún hringir á staðinn til þess að athuga með gang mála. Fyrir fram hafði hún gert sér í hugarlund lauslegt handrit að samtalinu. Fyrir svörum situr Jafet, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
[Sími hringir]
Jafet svarar: "Viðskipti, góðan dag."
Gógó: "Góðan dag, fiskur hrærivél fornöld púði 14,5 múrveggur."
Jafet: "Líbanon kennsla átthagi hnakkadramb gæðastjórnun."
Gógó: "Samtals kastanía dverghamstur naglbítur sjávarútvegsstefna?"
Jafet: "Blindraletur."
[Þarna hefur Jafet sett Gógó gjörsamlega út af sporinu, í handriti sínu að samtalinu reiknaði hún aldrei með þessu útspili hans. Á hún að breyta handritinu í beinni útsendingu? Hvers vegna þurfti Jafet endilega að blanda blindraletri inn í málið? Fylgist með í næsta þætti.]

Í dæminu að ofan má sjá vandann sem getur komið upp í slíkum samtölum. Hvernig getur Gógó brugðist við á farsælan hátt? Á hún að segja "Nú ertu búinn að eyðileggja þetta" og skella á eða segja með æsingi "Þetta var ekki í handritinu!" eða jafnvel eitthvað allt annað?


Líkleg viðbrögð Gógóar þegar Jafet minntist á blindraletur.

Ég man eftir mikilvægu símtali sem ég undirbjó nokkuð vel fyrir nokkrum árum. Þá lét ég mér ekki nægja að hafa lauslegt handrit ákveðið í huganum, heldur skrifaði líklega framvindu samtalsins niður á blað, ekki nóg með það heldur gerði ég ráð fyrir tveimur möguleikum í framvindu samtalsins. Þetta kom ekki að gagni, vegna þess að viðmælandinn kom algjörlega aftan að mér með tilvik númer þrjú sem hvergi hafði verið skrásett í mín gögn fyrir samtalið.

Sjónvarp á laugardagskvöldi

Nú fýsir marga að vita hvernig Spaugstofan var í kvöld. Svarið er að hún var með betra móti, sérstaklega má nefna Dressmann-labbið, mikið grín að Freysa fullum í Kastljósi og ansi öflugt skot á Geir Haarde, sem þótti fara yfir strikið um daginn með ummælum.

Svo sá ég slatta af þessari Söngvakeppni Sjónvarpsins. Eiríkur vann enda var hann bestur þarna, þótt ekki hafi þurft mikið til. Margir kusu lagið Þú tryllir mig sem er eitt af hallærislegustu lögum seinni ára, því það lenti í þriðja sæti. Ég veit ekki hvað var hallærislegast við það, hvæsið í bakröddunum í byrjun, textinn eða svipurinn á söngvaranum.

miðvikudagur, 14. febrúar 2007

Fórnarkostnaður

Þar sem ég sæki nú hagfræðitíma vikulega fer ég óhjákvæmilega að leiða hugann að fórnarkostnaði við alla hluti. Með því að blogga er ég t.d. að sólunda dýrmætum tíma sem ég hefði getað varið í að læra, vinna, prjóna eða borða konfekt. Öll verk skulu metin út frá fórnarkostnaði.

Kennarinn í faginu virðist hafa tamið sér hagfræðilega hugsun enda sprenglærður í faginu. Til dæmis hefur hann sagst hafa manneskju í vinnu við að þrífa heima hjá sér. Kona með hennar menntun eigi ekki að sóa tíma sínum í að þrífa heima, það sé sóun á menntun. Betra sé að hún nýti sinn tíma í hluti sem hæfa hennar menntun (þ.e. ef frítímí er ekki talinn með). Þannig sé samfélaginu best fyrir komið að hver og einn nýti krafta sína eftir eigin þekkingu. RæstiTÆKNIRINN (cand.mag.) er sérfræðingur á sínu sviði og sinnir því. Smiðnum er borgað fyrir að byggja húsið í stað þess að einhver Hallgrímur úti í bæ reyni að klastra saman húsi (þ.e.a.s. að því gefnu að sá Hallgrímur sé ekki smiður) enda smiðurinn væntanlega fagmannlegri við verkið og sneggri. Á meðan getur geislunarfræðingurin Hallgrímur geislað fólk og hluti.

Ég verð að viðurkena að ég kann ágætlega að meta slíkan hugsunarhátt, nú þarf ég bara að stefna á að afla mér nægilegrar menntunar til þess að þrif á heimili teljist sóun á minni menntun.

miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Framandi krydd í skókassa

Ég keypti nýja skó um daginn. Í skókassanum sem hýsti skóna leyndust ekki bara skór, þar leyndist líka bréf sem var vöðlað utan um og innan í skóna, en það var ekki allt því neðst á botni kassans leyndist ofurlítill bréfpoki. Ég tók hann af botninum dustaði af honum rykið og sá að ég hafði dottið í lukkupottinn, í litla bréfpokanum leyndust lítil korn, einhvers konar framandi krydd hugsaði ég. Fullur eftirvæntingar hljóp ég út í búð og keypti nýslegnar lambalundir. Þegar heim var komið dró ég fram eldhúsáhöldin og útbjó dýrindismáltíð úr lundunum ásamt smávegis salati og sósu.


Safnar kryddi úr skókössum. Á myndinni sést afrakstur 40 ára starfs.

Þegar máltíðin stóð á diskinum á borðinu sá ég að þetta var nánast fullkomið, það var bara eitt sem vantaði, kryddið sem mér áskotnaðist úr skókassanum. Ég dró fram pokann, reif á hann gat og sáldraði kryddinu yfir kjötið. Nú var máltíðin fullkomnuð. Ég tók upp hnífapörin og ætlaði að taka fyrsta bitann en rétt áður varð mér litið á litla bréfpokann, á honum stóð "DO NOT EAT - THROW AWAY!". Vonbrigðin voru svo mikil að ég lét alla máltíðina gossa í rusladallinn og sprakk svo af harmi.

sunnudagur, 4. febrúar 2007

Þjónustugjöldin!

Viðskiptabankarnir skiluðu allir methagnaði á síðasta ári. Margir eru brjálaðir og lýsa með dramatískum hætti hvernig bankarnir "seilast ofan í vasa bláfátæks almúgans á Íslandi sem lepur dauðann úr skel og fjármagna þannig stórveislur og svall innanlands og utan og hagnast um óteljandi milljarða og hrína svo eins og gráðug ógeðsleg svín " og það sem alltaf er nefnt fyrst eru þjónustugjöldin (næst er talað um háa vexti útlána). Þá vakna spurningar og vangaveltur:
  1. Með tilkomu einkabanka á netinu fyrir 10 árum eða meira geta langflestir viðskiptavinir bankanna framkvæmt 80-90% af viðskiptum sínum á netinu, jafnvel meira. Þar er ekki færslugjald á hverja færslu eða neitt slíkt en hóflegt gjald rukkað á ári fyrir einkabankann. Nýtir fólkið sem mest kvartar undan þjónustugjöldunum einkabanka til fulls?
  2. Vegna þess að bankaviðskipti eru komin að stórum hluta á netið er miklu dýrara að halda úti gjaldkerum í bönkum -> hærri þjónustugjöld.
  3. Starfsemi viðskiptabankanna er orðin meiri í útlöndum en á Íslandi og það sama má segja um hagnaðinn. Hvernig getur þá hagnaður bankanna skýrst á þjónustugjöldum á Íslandi?
  4. Stærstu skattgreiðendur landsins eru bankar og það skilar sér til samfélagsins.
  5. Meiri hagnaður nýtist til meiri vaxtar -> hærri skattgreiðslur í ríkiskassann.
  6. Innlánsvextir eru miklu hærri hér en t.d. í Danmörku. Er þá ekki eðlilegt að útlánsvextir og þjónustugjöld séu líka hærri?
Hagnaðurinn nú ætti samt sem áður vissulega að gefa svigrúm til hagstæðari kjara til viðskiptavina.


Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir áður en þeir breyttust í feit rymjandi svín. Sést greinilega í hvað stefnir af græðgissvipnum sem skín úr augunum. Þeir bíða bersýnilega eftir að seilast ofan í vasann þinn eftir þjónustugjöldunum sínum.