laugardagur, 17. febrúar 2007

Vandinn við formleg símtöl

Um daginn var ég viðstaddur umræðu um formleg símtöl, t.d. þegar þarf að hringja útaf atvinnuumsókn eða álíka (reyndar getur það sama átt við um formleg viðtöl sem fara ekki fram í gegnum síma). Viðstaddir sögðust almennt undirbúa slík símtöl sæmilega, helst með því að hugsa fyrir fram hvað skyldi segja auk þess að bollaleggja um hvað viðmælandinn segði, rétt viðbrögð við hverju útspili viðmælanda o.s.frv. - þannig má segja að fólk hafi ákveðið handrit að símtalinu í huga þegar hringt er.

Í slíkum símtölum kemur oftast upp sá vandi að viðmælandinn fer út fyrir handritið, þrumar út óvæntu útspili og þá þarf allt í einu að breyta handritinu í miðjum klíðum. Lítum á dæmi um slíkt símtal sem á sér þó enga stoð í raunveruleikanum, persónur jafnt sem orð eru uppspuni frá rótum og samhengi er lítið sem ekkert, en þó gæti það gefið gleggri mynd af því sem fjallað er um:

Gógó er menntaður viðskiptafræðingur og hefur nýverið sótt um vinnu hjá Viðskiptum ehf. Hún hringir á staðinn til þess að athuga með gang mála. Fyrir fram hafði hún gert sér í hugarlund lauslegt handrit að samtalinu. Fyrir svörum situr Jafet, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
[Sími hringir]
Jafet svarar: "Viðskipti, góðan dag."
Gógó: "Góðan dag, fiskur hrærivél fornöld púði 14,5 múrveggur."
Jafet: "Líbanon kennsla átthagi hnakkadramb gæðastjórnun."
Gógó: "Samtals kastanía dverghamstur naglbítur sjávarútvegsstefna?"
Jafet: "Blindraletur."
[Þarna hefur Jafet sett Gógó gjörsamlega út af sporinu, í handriti sínu að samtalinu reiknaði hún aldrei með þessu útspili hans. Á hún að breyta handritinu í beinni útsendingu? Hvers vegna þurfti Jafet endilega að blanda blindraletri inn í málið? Fylgist með í næsta þætti.]

Í dæminu að ofan má sjá vandann sem getur komið upp í slíkum samtölum. Hvernig getur Gógó brugðist við á farsælan hátt? Á hún að segja "Nú ertu búinn að eyðileggja þetta" og skella á eða segja með æsingi "Þetta var ekki í handritinu!" eða jafnvel eitthvað allt annað?


Líkleg viðbrögð Gógóar þegar Jafet minntist á blindraletur.

Ég man eftir mikilvægu símtali sem ég undirbjó nokkuð vel fyrir nokkrum árum. Þá lét ég mér ekki nægja að hafa lauslegt handrit ákveðið í huganum, heldur skrifaði líklega framvindu samtalsins niður á blað, ekki nóg með það heldur gerði ég ráð fyrir tveimur möguleikum í framvindu samtalsins. Þetta kom ekki að gagni, vegna þess að viðmælandinn kom algjörlega aftan að mér með tilvik númer þrjú sem hvergi hafði verið skrásett í mín gögn fyrir samtalið.