miðvikudagur, 14. febrúar 2007

Fórnarkostnaður

Þar sem ég sæki nú hagfræðitíma vikulega fer ég óhjákvæmilega að leiða hugann að fórnarkostnaði við alla hluti. Með því að blogga er ég t.d. að sólunda dýrmætum tíma sem ég hefði getað varið í að læra, vinna, prjóna eða borða konfekt. Öll verk skulu metin út frá fórnarkostnaði.

Kennarinn í faginu virðist hafa tamið sér hagfræðilega hugsun enda sprenglærður í faginu. Til dæmis hefur hann sagst hafa manneskju í vinnu við að þrífa heima hjá sér. Kona með hennar menntun eigi ekki að sóa tíma sínum í að þrífa heima, það sé sóun á menntun. Betra sé að hún nýti sinn tíma í hluti sem hæfa hennar menntun (þ.e. ef frítímí er ekki talinn með). Þannig sé samfélaginu best fyrir komið að hver og einn nýti krafta sína eftir eigin þekkingu. RæstiTÆKNIRINN (cand.mag.) er sérfræðingur á sínu sviði og sinnir því. Smiðnum er borgað fyrir að byggja húsið í stað þess að einhver Hallgrímur úti í bæ reyni að klastra saman húsi (þ.e.a.s. að því gefnu að sá Hallgrímur sé ekki smiður) enda smiðurinn væntanlega fagmannlegri við verkið og sneggri. Á meðan getur geislunarfræðingurin Hallgrímur geislað fólk og hluti.

Ég verð að viðurkena að ég kann ágætlega að meta slíkan hugsunarhátt, nú þarf ég bara að stefna á að afla mér nægilegrar menntunar til þess að þrif á heimili teljist sóun á minni menntun.