miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Framandi krydd í skókassa

Ég keypti nýja skó um daginn. Í skókassanum sem hýsti skóna leyndust ekki bara skór, þar leyndist líka bréf sem var vöðlað utan um og innan í skóna, en það var ekki allt því neðst á botni kassans leyndist ofurlítill bréfpoki. Ég tók hann af botninum dustaði af honum rykið og sá að ég hafði dottið í lukkupottinn, í litla bréfpokanum leyndust lítil korn, einhvers konar framandi krydd hugsaði ég. Fullur eftirvæntingar hljóp ég út í búð og keypti nýslegnar lambalundir. Þegar heim var komið dró ég fram eldhúsáhöldin og útbjó dýrindismáltíð úr lundunum ásamt smávegis salati og sósu.


Safnar kryddi úr skókössum. Á myndinni sést afrakstur 40 ára starfs.

Þegar máltíðin stóð á diskinum á borðinu sá ég að þetta var nánast fullkomið, það var bara eitt sem vantaði, kryddið sem mér áskotnaðist úr skókassanum. Ég dró fram pokann, reif á hann gat og sáldraði kryddinu yfir kjötið. Nú var máltíðin fullkomnuð. Ég tók upp hnífapörin og ætlaði að taka fyrsta bitann en rétt áður varð mér litið á litla bréfpokann, á honum stóð "DO NOT EAT - THROW AWAY!". Vonbrigðin voru svo mikil að ég lét alla máltíðina gossa í rusladallinn og sprakk svo af harmi.