Karókí
Í gær fór ég í skemmtilegustu vísindaferðina síðan ég byrjaði í háskólanum. Mikið var um dýrðir í mekka kapítalismans og auðhringjanna, Valhöll. Eftir þá dýrindis skemmtun fórum við á einn af börum bæjarins í dúndrandi karókí. Ég hef ekki sungið í slíku síðan ég ásamt tveimur öðrum góðum drengjum fórum mikinn í útskriftarferð sem tríóið Bluessandi. En nú fór ég upp tvisvar og hafði gaman að. Ég söng í bæði skiptin við annan mann enda hefði einsöngur verið of mikið af því góða. Þótt ég hafi haft gaman að, reikna ég síður með að áheyrendur hafi notið söngsins, enda held ég að ég hljómi eins og stunginn grís að syngja eða belja í húðstrýkingu. En er ekki einmitt tilgangurinn með karókí að fólk geri sig að fífli?Á mínum yngri árum í grunnskóla var ég í skólakór. Mér er sérstaklega minnisstætt atvik frá þeim tíma þegar ég hef verið átta ára eða svo. Það var þannig að litli skólakórinn úr sveitinni æfði af kappi vegna þess að við áttum að syngja í sjálfri höfuðborginni, nánar tiltekið í Perlunni fyrir múg og margmenni. Eftirvæntingin óx eftir því sem nær dró. Á síðustu æfingu fyrir atburðinn mikla bað kórstjórinn mig og stelpu úr kórnum að vera eftir, hún þyrfti að ræða við okkur í einrúmi. Erindi hennar var að biðja okkur tvö að syngja mjög lágt í Perlunni, helst áttum við að hvísla. Ástæðan var að sjálfsögðu hörmulegar skrækar söngraddir okkar tveggja (þótt hún hafi ekki sagt það hreint út, heldur pakkað því aðeins inn svo það hljómaði eilítið betur). Mig minnir reyndar að til viðbótar við að vera yfirgengilega skrækróma og laglaus krakkaskratti hafi ég sungið manna hæst í þessum kór. Þessi skilaboð kórstjórans voru auðvitað algjört "boozt" fyrir sjálfstraustið á þessum tíma. Reyndar get ég að vissu leyti skilið kórstjórann ágætlega því ég hef séð myndband af sjálfum mér á þessum árum þar sem skrækróma röddin er í aðalhlutverki og allt annað en kórsöngsvæn. Ég man ekki hvort ég hlýddi beiðni kórstjórans eða hvort hún var mér hvatning til að syngja enn hærra og skrækar í Perlunni en venjulega, sem hefði vissulega verið tilkomumikið fyrir viðstadda.