mánudagur, 5. mars 2007

Matarhornið

Kjötbollur voru á boðstólum í kvöld. Ég fann álitlega uppskrift á netinu og hófst handa. Hrærði saman svínahakki og hveiti og eggjum og salti og pipar. Í uppskriftinni stóð að saxaður laukur ætti heima í bolludeiginu en ég ákvað að vera dálítið villtur, gefa skít í ríkjandi viðmið og gildi, og sleppti lauknum. Í hans stað gerði ég dulítið brall í bauk og setti slurk af hvítlaukskryddi og dass af basillaufum saman við herlegheitin.

Svo kom á daginn að deigið var óttalega þunnt þótt ég hefði fylgt uppskriftinni í einu og öllu (ef laukleysið er undanskilið). Þá brá ég á það ráð að setja fullt af hveiti út í í viðbót. Deigið var nú orðið risavaxið og við það að flæða um gólf og ganga. En það kom ekki að sök og ég slengdi hæfilegum kjötklessum á pönnuna. Niðurstaðan varð kúffull stór skál af kjötbollum. Át eins og ég gat og setti afganga í frysti og ísskáp.

Bragðið af þessum sætu gullnu bollum sveik engan. Þarna virtust vera saman komin blær frumskógarins, angan merkurinnar, gola engisins, víðátta eyðimerkurinnar og ferskleiki kókospálmans, saman í einum bita. Bragðlaukarnir dönsuðu polka við dynjandi undirleik tanngarðsins. Þarna lærði ég að lifa og njóta eins og sannur lífskúnstner.

Einkunn: 8,5.