fimmtudagur, 15. mars 2007

Almannatengslafulltrúinn

Ég fór með bílinn á verkstæði í morgun, átti pantaðan tíma klukkan 9:00. Stundvíslega klukkan 9:00 mætti ég fyrir utan verkstæðið. Á planinu stóð glottandi maður sem gaf sig á tal við mig og sagði eitthvað á þessa leið: "Jæja, eru menn ekki bara hressir í morgunsárið?"
Ég: "hmm, jújú"
Maður (enn glottandi): "Hva, svafstu yfir þig?"
Ég:"uuu...naaa..."
Afhverju var þessi maður að tala við mig?

Maður: "Hahahaha, vaknaðirðu kannski líka yfir þig?"
Svo reytti hann af sér nokkra brandara í viðbót í svipuðum dúr. Tiltölulega nývaknaður reyndi ég að vinna úr þessari vitleysu sem flæddi þarna yfir mig eins og brotsjór.
  • Hvaða maður var þetta?
  • Af hverju var hann að tala við mig?
  • Var þetta hinn eiturhressi almannatengslafulltrúi verkstæðisins sem tók alltaf á móti viðskiptavinum með vel útilátnum nýuppáhelltum bröndurum?
  • Átti ég að flýja af hólmi áður en sturlun þessa furðulega manns færðist í aukana?
Ég gekk rólega frá manninum og að dyrum verkstæðisins. Ég tók í húninn. Það var læst. Á hurðinni stóð opnunartíminn, 8:00 - 18:00, svo þeir áttu að vera búnir að opna. Maðurinn kom þá aðvífandi og sagði:
"Ertu ekki með lykil?"
Ég: "Nei."
Maður: "Vinnurðu þá ekki hérna?"
Ég: "Nei."

Í því bili kom verkstæðisguttinn akandi og opnaði verkstæðið. Hann hafði líklega sofið yfir sig. Þótt ótrúlegt megi virðast lét maðurinn ekki brandarana dynja á honum eins og hann hafði nú reytt þá af sér rétt áður. Verkstæðisguttinn tók við erindunum, mannsins, mínu og konu sem hafði líka beðið fyrir utan.

Nokkrum mínútum síðar, þegar ég hafði gengið 100 metra eða svo frá verkstæðinu, mætti ég brandarakarlinum aftur þar sem hann stóð á stéttinni. Nú var ekki prakkaralegri glettninni fyrir að fara eins og áður heldur horfði hann mjög vandræðalegur undan þegar ég mætti honum. Ég þurfti að passa mig á að fara ekki að hlæja.

"Hva, vaknaðirðu kannski líka yfir þig?"
Búrúm tiss!