laugardagur, 3. mars 2007

Skrifað fyrir hönd þjóðarinnar

Íslenska þjóðin hefur valið mig til að skrifa þessi orð. Ég er hinn útvaldi talsmaður þjóðarinnar hér og tala fyrir hennar vilja. Hljómar þetta kunnuglega?

Nokkrir leiðtogar stjórnmálaflokka hafa talað sérstaklega um vilja þjóðarinnar undanfarið eða almennings. Þannig segir formaður Vinstri grænna að þjóðin vilji breytingar og að bullandi stemming sé fyrir því í samfélaginu að fella ríkisstjórnina. Staðreyndin er hins vegar sú að hann á við það hlutfall þjóðarinnar sem hefur sagst styðja VG í skoðanakönnunum undanfarið, þ.e. 10-15 % þeirra sem hafa tekið afstöðu til viðbótar við kjörfylgi flokksins í kosningum 2003 (rúm 8%). Það er ekki nógu stórt hlutfall til þess að tala um þjóð.

Í viðtali í Blaðinu í dag segir landbúnaðarráðherra orðrétt um hugsanleg stjórnarskipti eftir kosningar: "Ég held að þá megi búast við hærri sköttum á fólk og fyrirtæki og þess vegna muni almenningur gera það upp við sig að kaffibandalagið vilji hann ekki sjá.". Þarna talar hann fyrir hönd Framsóknarflokksins, valdasjúka smáflokksins sem mælist með 5-10% fylgi í könnunum um þessar mundir.

Þetta eru tvö dæmi um hve stórt ýmsir stjórnmálamenn taka upp í sig. Samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup hafa aldrei færri borið traust til Alþingis, eða 29% svarenda. Það skyldi þó ekki vera ástæða til.