Forvitni
Nú hefur maður heyrt þetta með kollsteypuna sem verður eftir kosningar ef vinstrimenn komast að. Gott og vel - gefum okkur að þessi meinta kollsteypa verði að veruleika. Hvernig virkar hún? Ég er orðinn ansi forvitinn að sjá það. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir þessu, ég held að ég verði að sjá kollsteypu í framkvæmd til að skilja hana.Ég hef þó einhverjar óljósar hugmyndir í kollinum. Þetta byrjar allt saman á því að Vinstri grænir og Samfylking gera stjórnarsáttmála (Frjálslyndir mögulega með ef með þarf upp á meirihlutann). Fljótlega eftir að stjórnarsáttmálinn er handsalaður stækkar Ögmundur Jónasson á óútskýranlegan hátt, verður á stærð við risa. Það sama kemur fyrir Steingrím J. og Ingibjörgu Sólrúnu rétt á eftir, jafnvel fleiri flokksmenn - ég átta mig ekki alveg á því. Svo þramma þau hvert í sína áttina, Steingrímur þrammar út á land, stefnir að Kárahnjúkum. Ögmundur Jónasson arkar af stað í áttina að Kirkjusandi, Ingibjörg hefst handa við að knésetja ríkissjóð með handaflinu einu saman.
Á Kirkjusandi, nánar tiltekið í höfuðstöðvum Glitnis, situr gleiðbrosandi þotuliðið í silkigöllunum og býr til peninga. Rétt eins og Kjartan galdrakarl í strumpunum hatar strumpa, þá hatar Ögmundur þotuliðið. Þotuliðinu verður nokkuð bilt við þegar það sér risastórt auga Ögmundar stara á það inn um gluggann á sjöundu hæð. Skelfing grípur um sig þegar hann hrifsar nokkra silkigallaklædda af handahófi út úr byggingunni og kremur eins og hver önnur skordýr. Því næst rífur hann höfustöðvarnar upp með rótum og fleygir þeim lengst út í hafsauga. Svo ber hann sér á bringu og hlær illkvitnislega.
Ögmundur á þaki höfuðstöðva Glitnis?
Á meðan á þessu stendur er Steingrímur J. á Kárahnjúkum. Hann er að brjóta niður Kárahnjúkastífluna. Hann einn veit líka um staðinn þar sem handbremsan er, handbremsan til að stöðva hjól atvinnulífsins. Eftir gott dagsverk á Kárahnjúkum laumast hann á leynistaðinn með handbremsunni, iðandi í skinninu af eftirvæntingu, nú verður sko bremsað!
Er ég nálægt lagi með þessar hugmyndir? Verður þetta svona? Er einhver sérfræðingur í kollsteypu sem getur frætt mig um málið?
----
Lokaorð: Hvað sem öðru líður finnst mér of margt neikvætt hafa komið út úr sitjandi ríkisstjórn. Ég held að ýmsir hafi gleypt við hræðsluáróðri stjórnarliða meira en góðu hófi gegnir og hræðist því breytingarnar að ástæðulausu. Ég vil stjórnarskipti. Ef þau verða síðan til þess að hagur þegna landsins versnar á fleiri sviðum en hann batnar, er sjálfsagt að sparka nýju stjórninni eftir fjögur ár.
|