þriðjudagur, 15. maí 2007

Stjórnarmyndun

Snemma á kosninganótt sagði formaður Framsóknarflokksins í viðtali við kosningasjónvarp RÚV að flokkur sinn væri ekki stjórntækur með svo lítið fylgi sem fram kom í fyrstu tölum. Það sama hafði hann sagt við fjölmiðla varðandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum skömmu fyrir kosningar. Þegar líða tók á kosninganótt virtist sem honum hefði snúist hugur (líklega hafa einhverjir valdagráðugir flokksmenn verið búnir að ræða við hann, ósáttir við orðin sem hann lét falla). Þá skyndilega fór hann að tala um "að skorast ekki undan ábyrgð" og því um líkt.

Í viðtölum við fjölmiðla daginn eftir sagði Jón nokkuð sem hefur náð vinsældum meðal Framsóknarmanna upp á síðkastið, nefnilega að kenna öðru en flokknum sjálfum um ófarir sínar. "Fjölmiðlaofbeldi" og jafnvel einelti voru hlutir sem flokksmenn höfðu mátt þola. Ekki getur hugsast að flokkurinn beri sjálfur ábyrgð á óförum sínum? Jafnvel að hann sé sjálfum sér verstur?

Nú standa síðan yfir viðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um hugsanlegt framhald á lífdögum ríkisstjórnarinnar um enn eitt kjörtímabilið. Þetta minnir óþægilega mikið á þegar Framsóknarmenn hoppuðu upp í með Sjálfstæðisflokki í borgarstjórn síðastliðið vor, þrátt fyrir að hafa rétt svo náð inn einum manni. Ekki var það beinlínis til að auka hróður flokksins. Það má í raun segja að kjósi flokkurinn að halda áfram í ríkisstjórn eftir gríðarlegan ósigur í kosningum, sé hann að gefa skít í þorra kjósenda.

Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram má segja að það sé staðfesting á því sem ágætur kennari minn í stjórnmálafræði sagði (og eflaust hafa fleiri sagt það áður): Það skiptir engu máli hvað maður kýs, alltaf kemur Framsókn upp úr kössunum.