föstudagur, 4. maí 2007

Sturlun Steingríms

Þeir sem stöðugt tala niður Vinstri græna fengu aldeilis vatn á myllu sína í gærkvöldi. Í viðtali Kastljóss við Steingrím J. sagðist hann vilja lengja fæðingarorlofið í 12 ár (þáttastjórnendur hváðu og þá reyndi Steingrímur að bakka út úr þeim forarpytt sem hann var kominn í og sagði afsakandi "12 mánuði" (eins og einhver trúi því)).

Jájá, svo ætlar hann víst að stofna netlöggu eins og hvergi þekkist nema í kommúnistaríkinu Kína.

VG ætla víst að þjóðnýta bankana aftur.

Handbremsur á atvinnulífið hef ég heyrt.

Svo munu þeir skattpína þjóðina svo menn munu þurfa að herða sultarólina, jafnvel þiggja þróunaraðstoð að utan.

Þeir hafa að vísu ekki sagt þetta sjáfir, en maður sér alltaf glitta í illskuna og Sovétdýrkunina hjá kommunum. Þeir munu fella grímuna og sýna sitt rétta eðli eftir kosningar, fái þeir til þess umboð.

Hér verður kollsteypa ef á kemst vinstristjórn. Sporin hræða. Við vitum hvernig vinstrimenn stjórna.

Áróður? Kjaftæði? Þvættingur? Spuni? Gott ef ekki.