þriðjudagur, 8. maí 2007

Spekingar í spjalli

Örfáir dagar eru til kosninga. Fólk ræðir málin á kaffistofum og götuhornum, "Jæja, hvað á svo að kjósa?" segja menn og sötra kaffið og bíta í kringlu með osti. Svörin eru misjöfn og sumir blóta "gjörspilltri Framsókn", aðrir "Frjálslyndum rasistum", enn aðrir "Samfylkingu með enga skoðun". "Blóðrauðu kommarnir!" og "bölvað íhaldið!" eru önnur viðkvæði sem fá að flakka manna á milli og svo svelgist þeim á kaffinu og kringlan stendur í þeim.

Áróðursmeistarar stíga á stokk og mála skrattann á vegginn úr öðrum flokkum en þeirra eigin. Misjafnt er hve vel tekst til. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið í kaffistofuspjalli um daginn. Ég var spurður hvað ég ætlaði að kjósa. Ég svaraði eftir bestu vitund og með góðri samvisku. Spyrjandi var frændi minn sem vinnur verkamannavinnu og svaraði tilsvari mínu svona: "Nú? Til þess að ég verði atvinnulaus?". Jú, þarna hitti hann naglann á höfuðið, einmitt til þess að hann verði atvinnulaus! Ég spurði á móti hvernig hann fengi það út og þá svaraði hann: "Ef það kemur vinstristjórn missi ég vinnuna". Virkilega öflug röksemdafærsla þarna á ferð. Orsakasamhengið er sem sagt nokurn veginn svona samkvæmt honum:
Ég kýs vinstri flokk -> hann missir vinnu.

Ég kalla þetta að vera ginnkeyptur fyrir áróðri og ekkert annað. Því meira sem ég sé og heyri af slíkum arfavitlausum áróðri, þeim mun ákveðnari verð ég í minni afstöðu. Ég skil ekki hversu mikið umræðan byggist á hræðsluáróðri í garð annarra flokka. Þó virðist slíkur áróður koma í meira mæli frá fylgjendum núverandi ríkisstjórnar, sem fara sumir út fyrir öll velsæmismörk í bulli og varnaðarorðum um vinstristjórn. Kannski væri betra að hver flokkur talaði fyrir sig og lýsti eigin áherslum, í stað þess að lýsa fjálglega hvað hinir flokkarnir muni gera, fái þeir aðstöðuna. Þetta er ekki alveg þannig að einn flokkurinn þýði himnaríki og hinir helvíti, þótt maður gæti haldið það ef maður hlustar of mikið á áróðursmeistara.


Eftir snarpa umræðu á kaffistofunni?