laugardagur, 27. mars 2004

Úrslit

Ég ætla ekki að ljúga því að ég sé sáttur við útkomu mína í kosningunum. Það má nánast segja að maður hafi fengið háðulega útreið úr þessu og þetta er næstum eins og að fá rýting í bakið (reyndar hef ég aldrei fengið rýting í bakið en ímynda mér að það sé svipað). Ekki var einusinni betri útkoma en í fyrra (miðað við fjölda frambjóðenda, 11 nú, en voru bara 6 í fyrra). Ég fékk 5% atkvæða og var næstlægstur. Ég vissi fyrirfram að það væri ólíklegt að ég næði inn því það voru svo margir að bjóða sig í þetta (og nokkrir alveg mjög frambærilegir). En að vera næstlægstur með 5% var ekki það sem ég reiknaði með. Ég reiknaði jafnvel með að ná inn með smá heppni. Sérstaklega þar sem ég er fallisti og hef verið með 2 árgöngum. En það virðist engu hafa skilað. Það má svosum reyna að finna e-r ástæður fyrir þessu og töldu menn sem ég ræddi við að auglýsingarnar mínar núna hefðu hvorki verið nógu margar né hressilegar. Í fyrra var líka ærlegt flipp tekið í auglýsingunum og myndir af mér með fáranlegar andlitsgeiflur var það sem blívaði. Ég ákvað núna að vera ekki með neinn fíflagang í auglýsingunum (eða á fundinum), líklega kolröng ákvörðun. Auglýsingar mínar skáru sig ekkert úr þetta árið. Í fyrra var þetta meira allt eða ekkert og allt lagt í sölurnar, steikarkosningagrein, steikarauglýsingar og rugl á kosningafundinum. Þá ákvað ég að fara í framboð, mjög lítið þekktur í skólanum og svona "sjá hvort ég fæ ekki einhver atkvæði". Og jújú, ég fékk einhver atkvæði og var bara alveg nokkuð sáttur þá. Ólíkt Ástþóri Magnússyni og Snorra Ásmundssyni ætla ég að taka þessari vísbendingu sem mér var gefin núna og sleppa því að bjóða mig oftar fram. En maður er náttúrulega orðinn svona smá "Ástþór" með því að bjóða sig fram tvisvar og tapa tvisvar. Hugsanlega er hluti af skýringunni sá að ég hef ekki gegnt neinu minna embætti í vetur og flaggaði engri reynslu (ég var að hugsa um að nefna sem reynslu að ég hefði leikið aðalhlutverkið í söngleiknum um Kidda á Ósi þegar ég var í 3. bekk grunnskóla, en hætti við að nota það). En meðstjórnandi er eiginlega eina embættið sem ég hef áhuga á.

Ég fór á kosningabjórkvöldið og þar voru nokkrir sem sögðust ósáttir fyrir mína hönd og sögðust hafa kosið mig.

En þetta er búið og gert og ég ætla bara að reyna að gleyma þessu sem fyrst.

Höskuldur, nýkjörinn forseti Vísindafélagsins, viðraði þá hugmynd við mig að stofnað yrði Þingeyingafélag MR og mér leist ekkert illa á það. Ég hafði ekki hugmynd um fyrr en um daginn að Hössi væri þingeyingur og einnig kom í ljós að Stefanía móðursystir hafði kennt honum í grunnskóla við góðan orðstír. Þetta bjórkvöld var með þeim betri í nokkurn tíma og margir voru mættir. Ég var edrú og á bíl því ég ætla að hvíla mig á víninu í einhvern tíma. Fram á sumar að minnsta kosti. En það verður væntanlega tekið á því í útskriftarferðinni í Króatíu.

Ég óska þeim Tótu, Gunna og Fannari Frey sem og öðrum sigurvegurum velfarnaðar í starfi. Þau munu án efa standa sig prýðilega. Ég er sérstaklega ánægður með að Ásgeir Birkisson verður collega á næsta ári.

Ég held að þetta sé lengsta bloggfærsla sem ég hef skrifað. Kannski ekki sú skemmtilegasta en það verður að hafa það.