sunnudagur, 29. maí 2005

Valdabarátta

Þegar ég kem í hús reyni ég oftast að sölsa undir mig vald húsbónda. Stundum er það auðvelt verk, stundum mjög erfitt. Húsbændurnir eru misjafnlega þaulsætnir í veldi sínu. Húsbóndi getur verið faðir, móðir, barn og jafnvel dýr. Á mörgum heimilum er enginn einn húsbóndi. Þar er jafnrétti. Að vísu ráða krakkarnir þá engu en foreldrarnir eru jafnráðir. Eðlilegt er talið að krakkar ráði engu af því að þá skortir enn þann þroska sem hver húsbóndi þarf að hafa til að bera til að geta orðið almennilegur húsbóndi. Þrátt fyrir þetta gerist það stundum að krakki er húsbóndi á heimili en þá er það vegna þess að foreldrarnir hafa afsalað sér húsbóndavaldinu til krakkans. Þetta gerist þegar krakkinn hefur verið ofdekraður frá barnæsku. Ef allt í einu á segja ?nei? við barn sem alltaf hefur fengið það sem það hefur óskað má búast við öskrum, gífuryrðum og argaþvargi af krakkanum. Krakkinn hefur þá tryggt sig í sessi sem húsbóndi og lætur embættið ekki af hendi baráttulaust. Foreldrarnir geta þá séð eftir því að hafa látið barnið hafa embættið upphaflega.

Þegar maður ætlar að sölsa undir sig húsbóndavald þarf maður að sigta út hver húsbóndinn á heimilinu er. Það getur reynst þraut hin þyngri í sumum tilvikum. Um daginn kom ég til dæmis í hús þar sem ég áttaði mig ekki strax á því hver húsbóndinn var. Síðan kom á daginn að það var kötturinn á heimilinu. Ég settist sallarólegur í einn stólinn í stofunni. Sat þar í smástund, eða þar til kötturinn stökk upp á arm stólsins. Hann horfði á mig illilegur og setti síðan upp kryppu og hvæsti smávegis. Ég lét sem ekkert væri. Kötturinn setti þá upp annan fótinn og skaut klónum út og bjó sig undir að stökkva á andlitið á mér þar sem hann hugðist læsa klónum í augntóftirnar og hrekja mig þannig úr húsbóndasætinu. Én ég sá hvert ráðbrugg hans var svo ég vék mér undan þegar stökkið kom. Kötturinn lenti þá hinum megin í sófanum. Við þetta virtist sem mestur vindur væri úr honum. Hann gekk reyndar fram og aftur í kringum stólinn og gjóaði augumum upp á mig öðru hvoru, ekki par hrifinn af nýjum húsbónda. Hann virtist þó vera búinn að gefa embættið upp á bátinn. Ég hélt síðan embættinu þar til ég fór út úr húsi en þá er líklegt að kötturinn hafi hirt það aftur. Þegar einhver annar en húsbóndi reynir að setjast í húsbóndastólinn þá annaðhvort sest húsbóndi á viðkomandi eða dregur hann út á asnaeyrunum. Hvorugt var auðvelt í tilviki kattarins, hann varð að gjalda fyrir smæð sína. Áður en ég hafði rænt hann valdinu hafði hann unað glaður við sitt og fór meðal annars að vegg og sleikti hann fram og aftur. Það var ekkert við það að athuga vegna þess að húsbónda er heimilt að hafa sínar sérviskur og duttlunga. Sumir húsbændur kjósa að hafa lappir uppi á borði, aðrir kjósa að sleikja veggi. Ég fór út af þessu heimili ánægður eftir vel heppnað valdarán. Ófáir húsbændur hafa endað fyrir utan með skófar á rassgatinu eftir að ég hef komið í heimsókn til þeirra en sumum hefur þó tekist að halda sæti sínu.