þriðjudagur, 3. maí 2005

Liverpool í úrslit Meistaradeildar Evrópu

Leikmenn, starfsmenn, þjálfari og síðast en ekki síst áhangendur Chelsea voru gríðarlega kokhraustir fyrir leik liðsins gegn Liverpool í kvöld. Þetta var formsatriði, liðið var nýbúið að hampa Englandsmeistaratitlinum og óstöðugt lið Liverpool átti ekki að vera mikil fyrirstaða á Anfield í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Jose Mourinho hrokagikkur sagði m.a. "Chelsea hafa 11 menn og Liverpool 11, en okkar 11 eru einfaldlega betri. Við vinnum þennan leik." og "Ég hef aldrei tapað í undanúrslitum og það mun ekki gerast núna."

Strax á 5. mínútu skoraði Luis Garcia fyrir Liverpool og það mark dugði til. Úrslitin 1-0 fyrir Liverpool. Dómari leiksins var ekki góður. Liverpool voru betri og báru sanngjarnan sigur úr býtum. Chelsea setti mikla pressu á þá fyrri hluta síðari hálfleiks sem þeir stóðust með sóma.

Þetta var glæsilegur sigur, jafnvel enn betri fyrir það hvað Chelsea-menn voru sigurvissir og sérstaklega góður út af hinum hrokafulla þjálfara Chelsea. Fagnaðarlætin ólguðu í leikslok á Glaumbar og vil ég í lokin vitna í útlendinginn sem sat fyrir framan okkur og sagði við okkur með hreim "Frábært!". Hann hefði ekki getað orðað þetta betur.

Í úrslitum mætir Liverpool annaðhvort PSV Eindhoven eða AC Milan. Ég er ekki sigurviss. Leikurinn getur farið hvernig sem er en ég mun styðja mína menn heilshugar.