miðvikudagur, 14. desember 2005

Jólahugvekja

Eftirfarandi á erindi til margra í þjóðfélaginu:

Hættið að láta eins og fávitar.

Hættið að keyra eins og fávitar hérna úti á umferðaræðunum út af því að þið eigið eftir að gera svo mikið og sjáið ekki fram á að ná því öllu. Hættið að þusa sínkt og heilagt um það hve mikið þið eigið eftir að gera: "Ég á eftir að þrífa allt og ég á eftir að baka allt og ég á eftir að skreyta allt og blablabla". Hver segir að það þurfi endilega að gera allt þetta? Af hverju þarf að gefa jólagjafir fyrir mörg þúsund, jafnvel hundruð þúsunda króna? Fólk þekkir ekki krakkana sína af því að það er alltaf að vinna og vinna til að eiga fyrir bílum og drasli og gjöfum handa krökkunum til að friða þau: "Ég verð að sýna nágrannanum að ég sé betri en hann með því að eiga ógeðslega geðveikan bíl". Með því er fólk ekki að sýna að það sé betra heldur frekar að það sé asnar sem eru að drepast úr flottræfilshætti. Af hverju þarf maður að bíða endalaust eftir afgreiðslu í matvörubúðinni? Jú, út af því að einhver spikfeit kerling er að kaupa feitmeti og sykurjukk fyrir fimmtán þúsund kall.

Hættið að vinna eins og geðsjúklingar af því að þið "þurfið" að gefa svo margar og dýrar jólagjafir og "þurfið" að fá ykkur flottari bíla. Alveg ótrúlegt hve sumir þurfa að bæta við skuldahalann í desember og líður illa þegar þeir sjá eigin eyðslu svart á hvítu eftir mánuðinn.

Jólin snúast um samveru með fjölskyldu og að borða góðan mat (ekki ógeðslega mikið af mat og ógeðslega mikið af kökum og konfekti, bara að það sé sæmilega gott og í hófi). Og hverjum er ekki drullusama þótt það sé ekki búið að strjúka burt rykið í gluggakistunum? Og hverjum líður betur við það að fá svimandi dýrar gjafir og að hafa gefið svimandi dýrar gjafir? Það verður enginn betri maður af því.

Spyr sá sem ekki veit. Taki það til sín sem eiga.