föstudagur, 13. júlí 2007

Lestur

Er að lesa býsna góða bók. Á sumrin gefst tími til frístundalesturs þegar námsbækur hafa verið lagðar á hilluna í þrjá mánuði. Meira um það síðar. Umrædd bók er kveikjan að eftirfarandi hugleiðingum.

Nú eru stjórnmál frekar asnaleg að ýmsu leyti. Menn þurfa helst að setja sig inn í sem flest mál, misáhugaverð og misskiljanleg fyrir Pétur og Pál.
Dæmi:Þingmaður Kristilega demókrataflokksins, Hrólfur, á að mæta í sjónvarpsviðtal um minnkun þorskstofnsins og hvernig best sé að takast á við vandann. Hrólfur er sérfæðingur í þessum málum, sprenglærður í þorskafræðunum - kann sitt fag. Síðan veikist hann daginn sem hann á að mæta í viðtalið og þá eru góð ráð dýr, hann er eini sérfræðingur flokksins í þessum málum. Þá þarf að hafa hraðar hendur og Rúrik er settur í málið. Þegar kemur að þorskstofni koma menn að tómum kofanum hjá honum, svo hann fær handrit, blað með tíu góðum frösum og einföldum skilgreininugum, sem á að vera nokkurnveginn sniðið að stefnu flokksins í málinu. Ef hann lendir í vandræðum í viðtalinu á hann bara að velja góðan frasa til að segja - með spekingssvip og horfandi yfir gleraugun til að sýnast gáfulegri og muna aldrei að svara beint því sem spurt er um, fara eins og köttur í kringum heitan graut:

  • Það þarf að setja gólf í dagróðrabátana!
  • Það er nægur fiskur í sjónum!
og ef hvorugur þessara virðist nægja fréttamanninum:

  • Hagvöxtur hefur aukist um 15% á einu ári, kaupmáttur um 23% og vísitala neysluverðs hefur aldrei verið hagstæðari en einmitt nú!
Alltaf að hafa allt eins einfalt og hægt er, en vera þó alltaf tilbúinn að kasta fram einu og einu flóknu orði til að virðast snjallari.

Og þegar áhorfandinn sér þetta hlýtur hann að hugsa:
Aaa, ég skil þetta ekki en þarna er greinilega maður sem kann sitt fag
-veit hvað hann syngur
-þekkir fræðin
-er eldri en tvævetur í bransanum.