föstudagur, 20. júlí 2007

Sólarhringsvinna

Um daginn var ég í skautskiptum alla 12 tímana í álverinu. Keyrði skautbakka og mölbakka á lyftaranum, opnaði og lokaði pottum og sópaði. Þetta er sveittasta og skítugasta verkið í kerskálanum. Menn verða sótsvartir í framan eins og námuverkamenn. Þegar ég kom heim lét mamma mig bera viðurstyggilega og ókristilega þungan og umfangsmikinn svefnsófa upp í íbúðina með mági sínum. Eftir þetta borðaði ég og fór að sofa.

Þegar ég lokaði augunum til að fara að sofa um kvöldið sá ég strax bara skautbakka og ker. Svo dreymdi mig:

  1. Ég var að keyra á lyftara og kom að gríðarstórum haug af mölbökkum, sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þeim var ekki staflað skipulega upp heldur voru allir á rúi og stúi. Ég þurfti einhvern veginn að brjóta mér leið í gegn. Handan haugsins hefur eflaust beðið verkefni, opna, loka, sópa, og flytja bakka af stað A á stað B. Ekki keyra bakkarnir sig sjálfir.
  2. Ég var að bera kleppþungan svefnsófa en vissi þó ekki hvert. Þetta var ferð án áfangastaðar.
Ætti ég ekki að vera á launum allan sólarhringinn þegar mig er farið að dreyma vinnuna eftir tólf tíma vakt? Er sem betur fer kominn í frí núna fram á miðvikudagsmorgun.