þriðjudagur, 24. júlí 2007

Lúkas

Þegar ég skrifaði síðustu færslu, um sjálfsvorkunnarköttinn, hafði ég lítið orðið var við stórfréttirnar af hundinum Lúkasi frá Akureyri. Svo var mér sagt frá fréttunum um hann, framhaldssögu fjölmiðla sem ku hafa farið fram marga undanfarna daga. Svo rak ég augun í þessa frétt framan á Fréttablaðinu frá því laugardaginn 21.júlí:

Lúkas lifir ekki veturinn af
"Svona hundur lifir ekki veturinn af nema hann sé innandyra," segir Björn Styrmir Árnason hundaatferlisráðgjafi.

„Tegundin er hárlaus og hefur enga vörn gegn kulda og bleytu. Svo hefur hún verið ræktuð þannig gegnum árin að hún hefur misst náttúrulega hæfni sína til að bjarga sér," segir hann.

Lúkas leggi sér því líklega til munns hvað eina sem að kjafti kemur, jafnvel rusl og skít. Þá sé ekki lengi að bíða ormasýkinga.

Hundsins hefur verið saknað síðan við maílok. Hann var sagður hafa verið drepinn á Akureyri um miðjan júní. Eigandi hans sá síðan til hans um síðustu helgi í Hlíðarfjalli, en hundurinn forðast mennina sem heitan eldinn.

Björn telur hundinn hafa orðið fyrir miklu sálrænu áfalli, fyrst hann haldi sig svo langt frá mannfólki. „Þegar hungrið sverfur að hjá þeim þá er það yfirleitt það fyrsta sem þeir gera að sækja til manna eftir öryggi og mat og hlýju," segir hann.

Þessi mikla fælni Lúkasar bendir til þess að eina úrræðið sé að fanga hann. „Fyrst hann er svona fráhverfur er ekki hægt að hefja endurhæfingu nema maður viti hvar hann er og geti gefið sér góðan tíma til að komast í námunda við hann. Þetta er nánast eins og að eiga við villt dýr, það þarf að yfirbuga óttann."

Jafnvel þótt það sé gúrkutíð, réttlætir það ekki slíkan fréttaflutning. Þetta er eins og fréttir fyrir leikskólabörn. Í því samhengi mætti kannski nefna að fæst leikskólabörn eru læs. Eflaust er sjálfsagt að eigendur hundsins minnist á þetta við ættingja og félaga, en þetta er langt frá því að vera efni í forsíðufrétt og varla fjölmiðlaefni yfirhöfuð.

Ég sé ekki betur en að ég ætti að láta fjölmiðla hafa upplýsingar um sjálfsvorkunnarköttinn - hvað skyldi kattaatferlisfræðingur segja um málið? Ég sé ekki betur en að þarna sé kominn forsíðumatur af bestu gerð.