þriðjudagur, 10. júlí 2007

Menn halda alltaf að þeir séu að finna upp hjólið

Hjólreiðar hafa aukist á götum Reykjavíkur undanfarin misseri. Hjólakappar spretta upp eins og gorkúlur og skjótast út úr næsta runna eða húsasundi á fljúgandi ferð. Bílstjórar eru margir hvumsa og kunna ekkert að bregðast við auknu framboði hjólreiðamanna. Sumir virðast líta á þá sem lægra setta og því megi svína á þeim að vild. Það er alrangt.

Hjólið sem ég fékk í stúdentsgjöf í fyrravor hefur reynst mjög vel og ég hef nýtt það óspart. Hjólaði í skólann í allan vetur ef veður var ekki þeim mun hryssingslegra eða hálka á götunum. Í sumar hef ég notað hjólið mikið enda veður gott. Um daginn hjólaði ég úr Vesturbænum og upp í Breiðholt (Fellahverfi), reiknaði fyrirfram með að það væri talsvert erfitt, en sú reyndist ekki raunin. Túrinn tók 45 mínútur á háannatíma, sem er ekki mikið meira en bíll fer þetta á í mestu traffíkinni. Einn kafli leiðarinnar tók aðeins á, að hjóla upp Elliðaárdalinn - að öðru leyti var þetta eins og að drekka vatn.

Hjólið hefur ýmsa kosti umfram bílinn, það eyðir ekki bensíni og þarf mun sjaldnar að stoppa á umferðarljósum (vegna undirganga) en eilíf stopp og tafir eru það leiðinlegasta við að keyra bíl hér í bænum. Stærsti kosturinn er þó líklega sá að það er miklu skemmtilegra að hjóla heldur en að keyra. Hins vegar mættu borgaryfirvöld sjá sóma sinn í að bæta aðgengi fyrir hjólreiðamenn, s.s. með fleiri undirgöngum o.s.frv. Það er komið yfirdrifið nóg af þessum andskotans mislægu gatnamótum og hringavitleysugöngubrúm (eins og yfir nýju Hringbraut). Bæta ætti strætókerfið og aðgengi fyrir hjólandi og gangandi. Bíllinn þarf ekki alltaf að vera númer eitt, tvö og þrjú þegar samgöngur eru skipulagðar í Reykjavík.

Lokaniðurstaða er sú að ég mæli eindregið með því að fólk hjóli eins mikið og hægt er, sérstaklega eins og veðrið hefur verið í sumar. Ekki hjóla bara einu sinni í vinnuna með sparibrosið í botni af því að það er "Vika hjólsins" og birtast á myndum í blöðunum eins og ónefndir stjórnmálamenn.

Jabba the Hut fær að slá botninn í þessa færslu.