sunnudagur, 22. júlí 2007

Sjálfsvorkunnarköttur

Kexruglaður köttur býr hér í nágrenninu. Ævinlega þegar ég mæti honum á vappi fyrir utan fer hann að emja eða mjálma ámátlega af slíkri innlifun að annað eins hefur varla heyrst. Í kvöld heyrði ég síðan heilan mjálmkonsert inn um gluggan. Ég vissi ekki hvað í ósköpunum væri á seyði og kíkti út um gluggann. Þá sat kötturinn í miðjum næsta garði og emjaði gjörsamlega linnulaust og þannig að bergmálaði um bæinn. Ég veit ekki hvort kötturinn á í einhvers konar innri sálarkreppu þessa dagana og reyni að fá smá útrás með eymdarlegu vælinu eða hvort hann gerir þetta bara vegna ástands heimsmála.

Rófuna vantar á blessaðan köttinn en hann missti hana fyrir löngu því ég hef séð hann við og við frá því ég flutti hingað fyrir þremur árum og alltaf rófulausan. En hver veit, kannski er hann að syrgja löngu horfna rófuna núna - dagana þegar hann var ungur og sprækur kettlingur og sveiflaði rófunni stoltur framan í gesti og gangandi. "Those were the days" gæti hann hugsað og brotnað gjörsamlega saman í kjölfarið.

En ef einhver kann að veita köttum sálfræðiaðstoð væri sá maður vinsæll hér.

--------
Nágrenni - Næsta umhverfi við tiltekinn stað.
Nágreni - Subbulegt húsnæði með líkum/subbulegt líkhús?