Nýnemar
Nú eru skólarnir byrjaðir og svokallaðir nýnemar eða busar mæta í skólana ásamt öðrum nemendum. Þetta er ekki eins og þegar beljunum er hleypt út á vorin og þær sletta úr klaufunum. Þetta er eins og þegar lömbin fara í sláturhúsið á haustin. Annars hef ég aldrei haft neitt á móti nýnemum fyrr en núna. Nú hef ég fengið ærna ástæðu til að fordæma þá. Það er þannig að ég tek strætó í skólann á morgnana eins og margir aðrir. Núna fyrstu skólavikuna hef ég oftast ekki fengið sæti í strætónum sem ég tek í skólann, 111. Það virðist vera rosalega mikið af nýnemum hérna í Seljahverfinu sem þurfa endilega að taka strætó 111. Það er alls ekki vinsælt að koma inn í strætó á morgnana og sjá öll sætin upptekin og í helmingnum af þeim sitja nýnemar. Svona nýnemar eru bara litlir og ljótir og vita ekkert. Það var samt ekki þannig þegar ég var nýnemi, þá voru allir bara stórir, myndarlegir og vissu mikið. En árgangurinn sem er að byrja núna virðist vera óvenju slæmur að þessu leyti. Reyndar er sökin á þessu með leið 111 ekki alfarið nýnemanna, Strætó bs. á nefnilega sína sök líka. Þeir eru hættir með langa harmonikkustrætóinn á morgnanna og nota bara svona lítinn, venjulegan strætó (sem er að minnsta kosti tvöfalt minni en harmonikkan) . Ég veit ekki hvað er að þeim sem stjórna því fyrirtæki, en eitthvað virðist það vera. Svo spurði einhver kona bílstjórann um daginn af hverju stóri strætó væri ekki lengur. Hún fékk svarið: "Þetta hefur alltaf verið svona" frá bílstjóranum. Það er bölvuð lygi. Ég tók alltaf 111 nikkuna í fyrra.
föstudagur, 29. ágúst 2003
fimmtudagur, 28. ágúst 2003
Survivor Stöð 2
Ég hef ansi gaman að þessum nýja raunveruleikaþætti: Survivor Stöð 2. Hann kemur virkilega ferskur inn. Þorsteinn Joð farinn, Árni Snævarr o.fl. og nú síðast Snorri Már Skúlason. Það sem er svo magnað við þennan raunveruleikaþátt er að hann er blákaldur raunveruleuikinn. Það er svona "The Tribe"(ættflokkur) og hann er í þessu tilfelli bara skipaður yfirmönnum Norðurljósa og kannski gjaldkera og bókhöldurum, varla fleiri en 5-6 manns. Svo eru allir starfsmenn Norðurljósa drullustressaðir yfir því að kannski verða þeir kosnir burt næst. Þegar The Tribe hefur kosið verður ekki aftur snúið. Og þegar menn er kosnir burt þýðir ekkert að væla og segja "elsku mamma" eða "elsku Jón Ól." við yfirmennina því þá fá þeir bara svör eins og: "Hvurn andskotann varðar mig um það hvort þú heitir Þorsteinn Joð eða Árni Snævarr. Mér er alveg sama. THE TRIBE HAS SPOKEN, félagi!". Svo er bara slökkt á þeirra kyndlum og þeir segja sín lokaorð, ekki þó á Stöð 2. Lokaorðin geta þeir sagt á öðrum fjölmiðlum.
Svo er bara spurningin hver vinnur Survivor Stöð 2. Kannski verður það Valtýr Björn sem er núna með sportþáttinn á Útvarpi Sögu. Þá fær hann pottþétt langan sportþátt á Stöð 2 í verðlaun. Þar getur hann spurt fótboltamenn og fótboltaþjálfar hvernig þeim gangi í golfinu og spilað lög með Hemma Gunn, eins og hann er svo duglegur að gera í þættinum sem hann er í núna.
Vesen
Sá sem kann að laga kommentakerfið hérna má endilega láta mig vita. Það er víst ekki hægt í comments þannig að leiðbeiningar væru vel þegnar í tölvupósti:gummifm@hotmail.com. Andrés Þorleifsson hefur oft vitað sitthvað um svona lagað. Ef hann veit þetta má hann láta vita.
þriðjudagur, 26. ágúst 2003
Slappt
Liverpool liðið byrjar leiktíðina afar illa. Það er alveg ljóst að Gerard Houllier á að reka og ekki hefði sakað þótt það hefði gerst í gær. Liðið lék við Aston Villa á sunnudaginn og sá leikur var hörmung á að horfa. Liverpool voru drullulélegir. Þeir spiluðu ekkert betri bolta en miðlungslið Aston Villa. Mér sýnist að það þurfi rússneska byltingu til að bjarga liðinu. Svoleiðis byltingar virðast vera að koma sterkar inn á Englandi. Liðið mun ekki vinna deildina þetta árið ef Houllier fær að stjórna áfram. Hann er gjörsamlega að skíta á sig núna. Vissulega tókst honum að vinna þrjá titla þarna eitt árið, UEFA cup og báðar ensku bikarkeppnirnar en síðan þá hefur liðinu bara farið aftur. Ég vil að Phil Thompson taki við liðinu til bráðabirgða og síðan verði fenginn einhver sóknarsinnaður stjóri til liðsins og að liðið fari að leika sambabolta og kannski spila aðeins upp kantana ef það er ekki til of mikils mælst. Svo vil ég að Sami Hyypia og Stephane Henchoz, sem hafa verið sterkasta miðvarðapar deildarinnar undanfarnar leiktíðir, verði seldir. Þeir virðast gjörsamlega heillum horfnir svo það á hiklaust að selja þá áður en þeir hríðfalla í verði. Svo má kaupa tvo sókndjarfa svarta Sambóa í vörnina í staðinn til að hjálpa til við sambaboltann. Þá má finna með því að senda njósnara á vegum liðsins til S-Ameríku og Afríku. Harry Kewell gat ekki rassgat í leiknum á móti Aston Villa. Þess vegna á að taka hann út úr liðinu í næsta leik og gefa öðrum tækifæri. Svo vantar einhvern svakalegan á miðjuna með Hamann og Gerrard. Það þarf mikið að hreinsa til í liðinu.
Ef þessari uppskrift verður fylgt ætti Liverpool liðið að verða enskur meistari næsta vor.
Flokkur/flokkar: Liverpool
föstudagur, 22. ágúst 2003
Algjör hársbreidd og taka tvö
Skólasetning var í MR í dag. Ég mætti. Sá nýja bekkinn sem er þó í raun gamli bekkurinn, þ.e. ég er í fjórða R annað árið í röð. Það er stemning. Kona hringdi í Suigurð G. Tómasson á Útvarpi sögu um daginn og sagði "algjör hársbreidd". Hún var rugluð. Hvalveiðar hafnar við Ísland á ný. Ég er alfarið hlynntur hvalveiðum. Þvílíkur lúxus að hafa fallið á önn. Nánast engin bókakaup. Ég verð hvorki í tölvufræði né dönsku. Þannig að það verður ekkert "elsku Þyrí". Ég er nú bara aldeilis hræddur um ekki. Verklegri efnafræði sleppi ég líka. Þetta verður líklega bara létt og löðurmannlegt verk, fjórði bekkur í annað sinn.
Sorgarfréttir dagsins komu í Dómkirkjunni við skólasetninguna. Skarphéðinn Pálmason stærðfræðikennari til "ég veit ekki hvað" margra ára lætur nú af störfum eftir dygga þjónustu við skólann í áraraðir. Haldinn var vænn pistill um störf hans og frama í MR og má geta þess að það var eiginlega það eina sem ég hlustaði á í kirkjunni. Annað sem sagt var í kirkjunni lét ég sem vind um eyru þjóta enda eru þessar skólasetningarræður alltaf eins eða mjög keimlíkar. Svo þegar minnst var á Konunginn, þá lagði ég aldeilis við hlustir. Hans verður minnst með ekka og trega og öllum pakkanum.
Svo komu líka gleðifréttir. Arnbjörn Jóhannesson íslenskukennari snýr aftur eftir eins árs námsleyfi sprækur sem aldrei fyrr. Hann mun einmitt kenna mínum bekk. Í heildina leist mér bara nokuð vel á kennarana mína þetta árið. Nauðsynlegt að hafa góða kennara.
Svo kom Hannes portner að máli við okkur og skaut inn nokkrum bröndurum eins og honum einum er lagið. Hann hefur sjálfsagt verið að undirbúa slatta af smellnum bröndurum í sumar til að kasta fram núna í vetur. Kennararnir hafa sjálfsagt líka fengið innblástur í sumar og bætt við brandarabankann. Það mætti einhver kennari mér og Pjakk á göngunum og gaukaði að okkur einum brandara í teilefni af því að við vorum á stuttbuxum: "Hvað, eruð þið enn þá úti á Krít?". Við ákváðum að segja henni ekkert að við hefðum ekki verið í útskriftarferð í sumar til að eyðileggja ekki fyrir henni brandarann. En þessi var mun síðri en Portnersbrandararnir, sem voru vel ígrundaðir að venju.
miðvikudagur, 20. ágúst 2003
Gerard Houllier, Gunni gír og fleira
Ekki hefur verið ritað reglulega hér upp á síðkastið. Því er ýmislegt sem vert er að nefna:
1. Gerard Houllier á að reka umsvifalaust ef Liverpool vinnur ekki næsta leik, gegn Aston Villa. Igor Biscan er í miklu uppáhaldi hjá Húlla og þegar menn hafa svoleiðis viðhorf getur ekki farið nema á einn veg: illa. Sá maður er allt of grófur og er mjög iðinn við það að brjóta mjög hemskulega á andstæðingunum. Í leiknum á móti Chelsea fylgdist ég vel með Biscan. Hann gerði eitthvað gott en mun meira slæmt. Selja þennan mann. Liverpool þarf alls ekki á honum að halda. Ég er fullviss um að bæði Salif Diao og John Welsh hefðu verið betri kostir en Biscan í stöðuna. Þegar Houllier er ekki fær um að stilla upp sterkasta byrjunarliði, þá á að fara að láta hann taka pokann sinn. Le Tallec og Milan Baros hefðu átt að byrja inni á í sókninni. Ef þeir hefðu ekki staðið sig, þá hefði hann átt að setja Owen og Heskey inn á í hálfleik. Svo er ég mjög ósáttur við að Húlli karlinn vilji leyfa Markus Babbel að fara. Hann á hiklaust að vera áfram hjá liðinu. Stuðningsmenn Liverpool krefjast titils núna og þótt fyrr hefði verið. Annars bara bless, bless Houllier.
2.Morgunþáttur Freysa á X-inu er oft góður þótt hann sé nú oft kominn á ansi hálan ís í skítkasti á ýmsa þjóðþekkta menn. Mesta snilld sem ég man eftir hafa heyrt í útvarpi er Gunni gír, en hann er einn af kynlegum kvistum sem eru reglulega teknir tali í þættinum. Gunni fylgist af áhuga með umferðinni og er sá alhressasti í bænum. Hann kemur alltaf með skemmtilegar sögur úr umferðinni. "Ha! Félagi!". Snilld.
3.Ég var að "uppgötva" hljómsveitina The Proclaimers. Lagið I'm Gonna Be (500 miles) með þeirri hljómsveit er gargandi snilld. Ég heyrði það í útvarpinu um daginn og mundi þá eftir að hafa oft heyrt það þegar ég var lítill þegar pabbi og mamma voru að spila plötu þeirra sem heitir Sunshine On Leith. Ég hef ekki verið nema 4-5 ára þegar ég heyrði lagið og hugsaði þá strax "hevví smellur". Ég man það. Svo í gær ákvað ég að dusta rykið af plötunni og það er ekki laust við að þetta sé alvöru "oldschool hardcore record" eins og kaninn segir. Nei, þetta er ekkert harðkjarna en mjög gott engu að síður. Rétt er að geta þess að ég hlustaði bara á hlið A á plötunni og veit ekkert um B hliðina. En A lofar góðu. Ef þessi hljómsveit tveggja skoskra bræðra væri ekki hætt fyrir löngu mundi ég segja að þeir ættu framtíðina fyrir sér, piltarnir. Kannski eru þeir bara gamlir karlar á elliheimili í dag. Enginn veit.
4. Allt er gott sem kemur frá Húsavík. Ég er búinn að komast að því. Þar sem ég fæddist í þessum litla bæ hef ég sterkar taugar til hans. Það síðasta sem ég var að uppgötva þaðan er hljómsveitin Innvortis. Ég var eitthvað að þvælast á netinu, fór inn á rokk.is og sótti mér lagið Andrea sem er með þeim Það er magnað. Líklega finnst mér það samt mun magnaðara en ella af því að það er frá Húsavík. Svo klikkar Húsavíkurjógúrt ekki.
5. Ég sofnaði yfir leik Íslands og Færeyja. Hann var leiðinlegur. Ég er ekki vanur að sofna yfir sjónvarpi.
6. Vinna er mikil þessa dagana og ofan á hana bætist yfirvinna. Uss.
7. Eina bók þurfti ég að kaupa fyrir skólann. Efnafræðibók var það en ég kýs að kalla hana símaskrá, slík er stærð hennar.
Fleira var það ekki.
Flokkur/flokkar: Liverpool
laugardagur, 16. ágúst 2003
sunnudagur, 10. ágúst 2003
Bruce Almighty og ruglaði karlinn
Á föstudagskvöld fór ég á myndina Bruce Almighty í Smárabíói. Fyrirfram bjóst ég við að myndin yrði rassgat og viðurstyggð því ég hafði heyrt slíka dóma úr öllum áttum. Einhverra hluta vegna ákvað ég samt að fara á hana. Myndin var töluvert betri en ég bjóst við. Skemmtilegar pælingar komu fyrir og hlegið var að vitleysunni þó nokkuð oft. Annars bar það helst til tíðinda að tvö hlé voru í þessari sýningu myndarinnar. Í ljós kom að seinna hléð átti sér eðlilega skýringu. Spólan hafði flækst og því varð nokkurra mínútna seinkun. Ég fékk ágætis bisnisshugmynd út frá þessu. Ég gæti opnað nýtt bíó og haft alltaf tvö hlé á myndum og látið eins og spólan hefði flækst eða það hefði kviknað í eða eitthvað. Svo gæti ég sagt á eftir: "...en það er tilboð á nammi núna!" og grætt þannig mun meira en ella á sauðheimskum bíógestum. En nú er ég búinn að opinbera þessa hugmynd svo fólk getur verið vart um sig ef ég hrindi henni í framkvæmd.
Síðasti vinnudagurinn með vinnuhópnum var á föstudaginn. Ég á samt eina viku eftir í vinnu en þá verður líklega bara afgangsfólkið sameinað í einn hóp. En þessi vinnudagur var geysiflippaður og upplífgandi. Gamli ruglaði karlinn (sem ég hef skrifað um einhvern tíma áður í sumar) kom og skemmti okkur þegar við vorum að vinna í Bökkunum. Nú fræddi hann okkur um vísitölustráin. Hann sagði okkur líka frá vísitölubrauðinu og rúsínunum sem hann var að fara að kaupa á tuttuguogfimmþúsund kall. Við spurðum hann hvort það væri ekki ansi mikill peningur fyrir eitt skitið brauð og rúsínur. "Nei, ekki fyrir vísitölubrauð!". Svo benti hann á mig og Elvar og sagði einhverjum stelpum sem voru að vinna þarna við arfareytingu að ef grasið væri svona eins og hárið á hausnum á okkur væri það nógu vel slegið: "Burstaklipptir menn!". Einnig vildi hann kvarta yfir undirgöngum á einum stað í Breiðholtinu. Svo sagði hann okkur frá Baldri Snæland og Grími á Vestfjörðum, pabba Ólafs Ragnars forseta. Hann fór síðan í u.þ.b tíu mínútur, kom síðan til baka með brauð í poka (vísitölubrauðið væntanlega). Allt í einu reif hann upp brauðpokann og reif gat á hann og sturtaði nokkrum brauðsneiðum á grasið. Það var mjög fyndið. Þetta var að sögn til að fóðra fuglana. Maðurinn virtist vera mikill dýravinur. En hann hafði skoðanir á ýmsum þjóðmálum, m.a. því hvernig Ingibjörg Sólrún yfirgaf borgina. Það er alveg ljóst að ef þessi maður býður sig fram á þing mun ég kjósa hann þrátt fyrir að hann búi í röri í Elliðaárdalnum að eigin sögn. Ég vil líka tvímælalaust að þessi maður fái sinn sjónvarpsþátt í Ríkissjónvarpinu. Hann gæti t.d. tekið við þætti Gísla Marteins. Hann gæti síðan fengið viðmælendur eins og Hannes Hólmstein, Völu Matt og Kristján Jóhannsson en þau fengju voðalega lítið að segja og hann væri bara að fræða þau um vísitölustráin og Grím á Vestfjörðum og svoleiðis. Ég held að slíkur þáttur gæti hiklaust farið í 95% áhorf. Það er a.m.k. gefið að ég mundi ekki missa af honum. Ég gæfi mikið fyrir að sjá hvernig þessi maður er þegar hann er fullur.
Þrátt fyrir að maður þessi sé ruglaður er ótrúlegt hvað hann veit mikið um þjóðmál og sögu og slíkt.
Ruglaða karlinn á þing 2007!
fimmtudagur, 7. ágúst 2003
Ofsafengin trúarbrögð
Um daginn heyrði ég skemmtilega sögu frá frænku minni. Það var þannig að hún var stödd í Ísrael og fór að Grátmúrnum. Þar var fjöldi fólks, flestir gyðingar og voru þeir að skalla múrinn, væntanlega með það að leiðarljósi að meiða sig svo þeir gætu grátið (vegna trúarbragða sinna). Þetta fannst frænku minni eðlilega skondin sjón og átti erfitt með að halda í sér hlátrinum þegar hún sá þetta. Það var líka eins gott að hún fór ekki að hlæja því slíkt er litið alvarlegum augum við Grátmúrinn og þá hefði hún líklega verið grýtt til óbóta. Svona geta trúarbrögð verið ofsafengin og furðuleg. Ég held að þeir gætu alveg eins skallað ljósastaur en ekki segja þeim það því ég vil ekki lenda í grjótkasti.
Liggur við alveg ferlegur
Það liggur við alveg að hann Tómas Pajdak sé ferlegur eins og hefur oft komið fram áður (þetta "liggur við alveg" er einkahúmor sem ég nenni ekki að útskýra). Núna áðan var ég að fá mér blund eftir langan og strangan vinnudag. Það getur verið alveg meinhressandi. Nei, nei, kemur ekki Tómas Pajdak og hringir bjöllunni. Skipti það engum togum að ég var vakinn upp af værum blundi af þessum sökum. Þetta var illur leikur hjá Pjakk.
þriðjudagur, 5. ágúst 2003
Meðmæli
Ég verð að mæla með þessu:
-KEA skyr með ferskjum. Það er besta skyrið á markaðnum í dag.
-lagið Glerhjarta sem er síðasta og jafnframt rólegasta lagið á nýjustu plötu Maus.
-Létt drykkjarjógúrt með melónum frá MS.
Coldplay hafa alltaf verið óttalegir gaularar. Þó ber að nefna að nýja lagið þeirra er augljóslega þeirra besta hingað til. Meðmæli þar.
Gamlir kartöflugarðar heima
Enn á ný er Árni nokkur Johnsen kominn í fréttirnar. Ég hélt að álit mitt á þeim manni gæti ekki minnkað mikið en annað kom á daginn. Að sjálfsögðu á hann að taka út sína refsingu eins og annað fólk sem brotið hefur af sér. Lögin eru alveg skýr. Ef Árni hefði fengið leyfi til að syngja sinn brekkusöng, hefðu þá ekki aðrir fangar átt að fá frí líka þessa helgi? Þeir gætu notað svipuð rök og Árni gerir, eins og: "Ég hef nú farið í svallveislu í Atlavík um verslunarmannahelgi síðustu 20 ár, ætlið þið að banna mér það núna bara af því að ég sit inni? Ég er mjög vinsæll hjá hátíðargestum í Atlavík. Ég spila oft á banjó og syng fyrir þá". Hvaða máli skiptir það að hefð sé að Árni spili þennan brekkusöng? Ef honum er svona annt um brekkusönginn gat hann alveg sleppt því að brjóta af sér. Og svo kemur eitthvað skammarbréf frá Árna með þyrlu á þjóðhátíð þar sem hann segir þá sem stóðu í vegi fyrir honum "fyrirlíta fólk og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera lífið leiðinlegt" og fleira í þeim dúr. Þetta var síðan lesið upp og allur pakkinn var á kostnað þjóðhátíðar. Ekki hefði ég viljað borga mig inn á þjóðhátíð vitandi að hluti af þeim peningum færu í þyrlu með arfavitlausu skammarbréfi frá Árna. Ég heyrði þátt á Útvarpi sögu í dag þar sem rætt var um þetta og þar skiptist fólk alveg í tvo hópa eftir því hvort það vildi leyfi fyrir Johnsen eður ei. Þeir sem vildu að karlinn hefði fengið leyfi voru á því að þetta væri órjúfanleg hefð og slíkt. Það bara skiptir engu máli í þessu, maðurinn á að afplána sína refsingu. Heimurinn ferst ekki þótt Johnsen spili ekki á þjóðhátíð. Það kemur maður í manns stað eins og fólk sá. Róbert Marshall spilaði og virtist fólk almennt sátt við það.