föstudagur, 29. ágúst 2003

Nýnemar

Nú eru skólarnir byrjaðir og svokallaðir nýnemar eða busar mæta í skólana ásamt öðrum nemendum. Þetta er ekki eins og þegar beljunum er hleypt út á vorin og þær sletta úr klaufunum. Þetta er eins og þegar lömbin fara í sláturhúsið á haustin. Annars hef ég aldrei haft neitt á móti nýnemum fyrr en núna. Nú hef ég fengið ærna ástæðu til að fordæma þá. Það er þannig að ég tek strætó í skólann á morgnana eins og margir aðrir. Núna fyrstu skólavikuna hef ég oftast ekki fengið sæti í strætónum sem ég tek í skólann, 111. Það virðist vera rosalega mikið af nýnemum hérna í Seljahverfinu sem þurfa endilega að taka strætó 111. Það er alls ekki vinsælt að koma inn í strætó á morgnana og sjá öll sætin upptekin og í helmingnum af þeim sitja nýnemar. Svona nýnemar eru bara litlir og ljótir og vita ekkert. Það var samt ekki þannig þegar ég var nýnemi, þá voru allir bara stórir, myndarlegir og vissu mikið. En árgangurinn sem er að byrja núna virðist vera óvenju slæmur að þessu leyti. Reyndar er sökin á þessu með leið 111 ekki alfarið nýnemanna, Strætó bs. á nefnilega sína sök líka. Þeir eru hættir með langa harmonikkustrætóinn á morgnanna og nota bara svona lítinn, venjulegan strætó (sem er að minnsta kosti tvöfalt minni en harmonikkan) . Ég veit ekki hvað er að þeim sem stjórna því fyrirtæki, en eitthvað virðist það vera. Svo spurði einhver kona bílstjórann um daginn af hverju stóri strætó væri ekki lengur. Hún fékk svarið: "Þetta hefur alltaf verið svona" frá bílstjóranum. Það er bölvuð lygi. Ég tók alltaf 111 nikkuna í fyrra.